146. löggjafarþing — 54. fundur,  4. apr. 2017.

lyfjastefna til ársins 2022.

372. mál
[18:41]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Ég vil þakka kærlega fyrir mjög góða umræðu. Ég ætla að reyna að svara nokkrum spurningum sem til mín var beint og koma aðeins inn á nokkur atriði sem hv. þingmenn vöktu athygli á í ræðum sínum.

Ég vil ítreka það sem kom fram í svörum mínum við andsvörum hv. þm. Halldóru Mogensen hér fyrr, að ástæðan fyrir því að ekki er farið dýpra inn í kostnaðarþátttöku í lyfjastefnunni umfram frekar almennt orðalag er að kostnaðarþátttakan og aðgengi að lyfjum er að einhverju leyti háð fjárveitingum og fjárheimildum sem Alþingi veitir. Eins og við þekkjum öll voru fjárheimildir til lyfjaliðarins samþykktar af Alþingi fyrir jólin fyrir árið 2017. Það er nokkuð ljóst miðað við stöðuna núna að það var stórlega vanáætlað og þess vegna samþykkti ríkisstjórnin og fól mér og hæstv. fjármálaráðherra að fara sérstaklega í að skoða þau mál og tryggja að nauðsynleg lyf væru fjármögnuð. Sú vinna er í gangi. Þess vegna er líka horft til þess sem er kallað veikleiki í fjárlögum 2017 eða grunnfjárlaga 2017 þegar verið er að skoða þennan málaflokk inn í fjármálaáætlun 2018–2022. Það er í raun og veru verið að taka tillit til þessa sívaxandi kostnaðarþáttar sem eru lyfin, því að þrátt fyrir, að maður hefði haldið, jákvæða gengisþróun þá hefur kostnaður við lyf ekki aukist jafn mikið á milli ára um háa herrans tíð og gerðist á síðasta ári.

Í lyfjastefnunni, í f-lið undir 1. liðnum, er tekið fram að unnið verði áfram með hagsmunaaðilum að þeim markmiðum að halda verðlagi lyfja innan hóflegra marka og í samræmi við nágrannalöndin. Síðan segir í greinargerðinni, svo ég vitni, með leyfi forseta:

„Nauðsynlegt er að heilbrigðisyfirvöld vinni áfram að því markmiði að halda verðlagi lyfja sambærilegu við það sem er í nágrannalöndum. Nauðsynlegt er jafnframt að gera ráð fyrir auknum lyfjakostnaði vegna fólksfjölgunar og þess að þjóðin eldist.“

Þar er verið að vísa til nauðsyn þess að horfa á kostnaðinn þegar kemur að lyfjunum í fjárlagagerðinni.

Áður en tíminn rennur allur frá mér ætla ég að reyna að koma inn á nokkra punkta sem hv. þingmenn hafa bent á og vil ég þakka aftur fyrir sérlega góðar ræður.

Hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir minntist á mikilvægi þess að horft væri til millivirkni lyfja og, eins og það er orðað, meðferðarheldni. Þetta eru oft orð sem eru okkur kannski ekki töm, þ.e. hvernig samverkun lyfja er hjá þeim sem eru haldnir mörgum sjúkdómum eða flóknum sjúkdómum. Þetta á gjarnan við um þá sem eru orðnir eldri og nota mörg mismunandi lyf, þá er mikilvægt að þess sé gætt að þau virki vel saman og ekki fari illa.

Hluti af því er það sem hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir minntist á í ræðu sinni, sem er nauðsyn þess að bæta upplýsingar og sameiginleg rafræn skráningarkerfi. Góðu fréttirnar eru að okkur Íslendingum hefur í krafti smæðar okkar tekist að komast lengra en flestar aðrar þjóðir í rafrænum skráningum, við höfum held ég hærra hlutfall af rafrænum lyfseðlum en þær þjóðir sem við miðum okkur við. Fyrir utan það er svo að bæta skráninguna og vonandi bæta það að fólk hafi þau lyf sem eru því nauðsynleg. Það ætti líka að minnka líkurnar á því að lyf séu rangt gefin eða rangt ávísað og að læknar séu með allar upplýsingar á hendi fyrir samverkun lyfja.

Hv. þm. Guðjón S. Brjánsson kom inn á það sem er mikið rætt, sem er óvenju mikil notkun okkar á Íslandi á geðlyfjum og ákveðnum verkjalyfjum. Það er tekið til þess sérstaklega í lyfjastefnunni að þetta þurfi að skoða. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður segir, að svarið sé stundum dálítið þunnt um það hvernig standi á þessu. Ég vísa til frétta frá embætti landlæknis og á vef embættis landlæknis þar sem verið er að skoða þetta út frá niðurstöðum um mjög mikla notkun á geðlyfjum, embættið er að skoða þessi mál. Það er hægt að leiða að því líkur að að einhverju leyti sé þetta háð því að við erum lítil þjóð og það að tískur eða ákveðnar áherslur fari hratt yfir í litlu samfélagi. Þegar við tökum upp nýjar meðferðir þá fréttast þær strax um allt. Það getur verið ein af ástæðunum. Síðan hefur líka verið talað um það að við höfum því miður dregist aftur úr í geðheilbrigðisþjónustu og aðgengi að annarri geðheilbrigðisþjónustu. Það gæti gert það að verkum að það verði einhver aukin tilhneiging til þess að ávísa lyfjum í staðinn.

Eins og ég segi, og tek undir með hv. þingmanni, er mikilvægt að við skoðum þessi mál sérstaklega vegna þess að eins góð og lyf eru þegar þau eru rétt notuð og rétt ávísuð getur það verið stórkostlegt neytendamál og hreinlega öryggismál þegar lyf eru ofnotuð eða rangt notuð.

Í sambandi við sameiginleg innkaup sem nokkrir hv. þingmenn komu inn á í ræðum sínum er það rétt að þetta er löng umræða. Íslendingar hafa kannski öðrum fremur ýtt á að komið verði á meiri samvinnu í innkaupum og útboðum og upplýsingagjöf þegar kemur að lyfjum, enda er það skiljanlega erfitt fyrir lítið land, fyrir lítið kerfi, að hafa jafn mikla yfirsýn og afkasta hreinlega jafn miklu og stærri þjóðir gera.

Góðu fréttirnar eru að það horfir til einhverra tíðinda í þessum málum. Ég var sjálfur staddur á stórum ráðherrafundi á vegum OECD í vetur þar sem ráðherrar frá öllum þjóðum, stórum, litlum, ríkum, fátækum og flestum heimsálfum, voru sammála um mikilvægi þess að auka samvinnuna í þessu. Benelux-löndin eru nú þegar komin langt og eins og ég minntist á í framsöguræðu minni var samþykkt á ráðherrafundi Norrænu ráðherranefndarinnar í síðustu viku, þar sem ég sótti fund með öðrum heilbrigðisráðherrum, að setja af stað sameiginlegan vettvang Norðurlandanna til þess að vinna sérstaklega að þessu máli. Ég leyfi mér að vera bjartsýnn þó svo að ég geri mér grein fyrir því að ég er núna kominn í óþægilega langa röð heilbrigðisráðherra á Íslandi sem hafa leyft sér að vera bjartsýnir í þessum málum.

Örsnöggt áður en tíminn rennur út hjá mér vil ég taka undir hugmyndina hér um að skoða það að sérmenntaðir hjúkrunarfræðingar og ljósmæður fái takmarkaðan rétt til þess að ávísa lyfjum, sérstaklega í sambandi við fæðingarþjónustu. Hugmyndin um að kanna hvort æskilegt sé að heimilað verði að selja tiltekin lausasölulyf í almennum verslunum er einmitt ekki neitt annað en að kannað verði hvort það sé æskilegt. Hugmyndin (Forseti hringir.) er ekki að kollvarpa lyfjasölukerfi landsins heldur að skoða hvort (Forseti hringir.) þetta geti verið leið til að bæta aðgengið.

Ég vil þakka fyrir góða umræðu og hlakka til að fylgjast með málinu hjá nefndinni.