146. löggjafarþing — 55. fundur,  5. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:18]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni og formanni fjárlaganefndar fyrir ræðuna. Mér fannst hann svolítið brattur og bjartsýnn en það er kannski hlutverkið að vera það.

Þingið getur verið óútreiknanlegt en það breytir því þó ekki að við erum mjög föst í ákveðnum ramma. Það er það sem við höfum gagnrýnt, eins og hv. þingmaður veit, og við í minni hlutanum höfum haft áhyggjur af, og hann og fleiri eflaust líka. En þegar við tölum um tölur og annað slíkt langar mig til að spyrja t.d. varðandi Gæsluna, því að við höfum rætt hana aðeins. Ég hef verið að reyna að átta mig á þessum tölum. Uppsöfnuð breyting í yfirlitinu sem er að finna í bókinni, þegar búið er að bæta henni inn er hún rétt tæpir 14 milljarðar. Ég geri mér grein fyrir því að frá dregst leiga og annað slíkt sem viðkemur nýjum þyrlum. En það væri áhugavert að vita hvort þingmaðurinn telur að það sé nægilegt rými fyrir þessi þyrlukaup ásamt því að þjálfa og vera með fleiri áhafnir til taks eins og Gæslan hefur óskað eftir. Mér finnst rýmið mjög lítið innan áætlunarinnar ef maður tekur svo líka til réttaröryggið og annað sem fellur undir málaflokkinn, saksóknara og annað slíkt.

Ég spyr þingmanninn hvort hann sé sannfærður um það.

Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann telji ásættanlegt að flest ráðuneyti nái ekki að búa sér til varasjóð vegna þess að þau nýta útgjaldasvigrúm sitt nú þegar til að mæta einhverju sem við teljum að ætti að vera sjálfsagður hlutur. Komið hefur fram hjá okkur í fjárlaganefnd að þau munu ekki ná sum hver, líklega fleiri en færri, að búa sér til útgjaldasvigrúm á komandi árum.