146. löggjafarþing — 56. fundur,  6. apr. 2017.

framlög í fjármálaáætlun og kosningaloforð.

[10:56]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Sú var tíðin að við fengum tekjuráðstafanir ríkisstjórnarinnar fram einhvern tímann um miðjan nóvember, eitthvað svoleiðis, fyrir komandi ár. Við höfum gert breytingar á því og fært það frumvarp fram með fjárlagafrumvarpinu og höfum sömuleiðis fært þingsetningardaginn fram snemma í september. Nú höfum við tekið viðbótarskref með ríkisfjármálaáætluninni og erum byrjuð að horfa til næstu fimm ára þegar við skoðum tekju- og gjaldalínurnar. Þegar menn koma hér og segja að ekki sé nægilega miklu fjármagni varið í einstaka málaflokka, hvort sem er sjúkrahúsþjónustan, almannatryggingar, hvort það er í kjarasamninga til þeirra sem eru með lægst launin eða menntamál, rannsóknir og þróun, þá er ágætt að hafa það sem grunn sem við höfum verið að ræða hér undanfarna daga, sem er fjármálastefna ríkisstjórnarinnar. Við höfum lagt fram áætlun um að skila afgangi af ríkisfjármálunum, lækka skuldir, en samt sem áður auka í við framlög í alla mikilvægustu málaflokkana. Sérstaklega höfum við forgangsraðað í þágu heilbrigðismála og félagsmála. Ástæðan fyrir því að vöxturinn í sjúkrahúsþjónustunni milli ára er ekki meiri en raun ber vitni og hér var rakið er sú að við tókum um síðustu áramót ákvörðun um að stórauka framlögin upp á nokkra milljarða. Við höldum allri þeirri aukningu inni í ríkisfjármálaáætluninni og bætum um betur. Svona gæti ég rakið alla þá liði sem hv. þingmaður kom inn á. Hér er nefnd fátækt, þeir sem hafa minnst milli handanna. Bendið mér á eitthvert ár í þingsögunni þar sem við jukum meira við framlög til almannatrygginga en við erum að gera á þessu ári. Við settum 22 milljarða inn í almannatryggingarnar um áramótin til að gera betur við eldri borgara sem hafa úr litlu að spila, til að draga úr skerðingum. Við erum búin að taka frá í fjármálaáætluninni milljarða til þess að gera umbætur á umhverfi öryrkja, til að færa okkur nær því fyrirkomulagi sem nú hefur nýlega verið innleitt. Svo að lokum höfum við á undanförnum árum verið að stórauka framlög í samkeppnissjóðina og þannig verður áfram starfað.