146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:28]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er fyrst spurt um stefnumörkun í heilbrigðismálum almennt og velferðarmálum og hvort ég muni í krafti verkstjórnarvalds beita mér fyrir því að yfirlýst áform um átak í þeim málum gangi eftir. Ég get svarað því með glöðu geði að ég mun gera það í anda stjórnarsáttmálans. Við sjáum á málefnasviðunum sem hér heyra undir — hvort sem er sjúkrahúsþjónustan, heilbrigðisþjónusta utan sjúkrahúsa, hjúkrunar- og endurhæfingarþjónusta eða lyf og lækningavörur o.s.frv., þetta eru málaflokkar 23 til 26 — að það er raunaukning á þessa málaflokka. Það kemur í kjölfar þess að við höfum verið að auka við í hvern þessara málaflokka. Það er hins vegar alveg rétt, sem bent hefur verið á, að stór hluti aukningarinnar á komandi árum mun fara í að byggja mannvirkin sem eiga að hýsa starfsemina. En það er uppbyggingarfasi sem við verðum að ráðast í. Á undanförnum árum höfum við sett mjög mikla fjármuni í að gera nýja kjarasamninga. Við höfum náð árangri þar sem hefur slökkt á umræðunni um að íslenskt heilbrigðisstarfsfólk sé ekki jafnsett starfsbræðrum sínum og systrum á Norðurlöndunum. Við kostuðum miklu til við að gera betri kjarasamninga og halda í þetta hæfa fólk og hafa það hér heima í heilbrigðiskerfinu. Nú stöndum við frammi fyrir því að þurfa að setja mikla fjármuni í mannvirkin sjálf, í fasteignirnar. Við erum stolt af því að vera með í höndunum fjármagnaða áætlun um þá uppbyggingu. Það var ekki alltaf þannig. Lengi framan af voru það orðin tóm að þetta stæði til. En þá koma menn og benda á að of naumt sé skammtað til sjálfs rekstrarins. Þá bendi ég bara á að þrátt fyrir allt höfum við verið að auka við reksturinn á undanförnum árum. Við ætlum áfram að bæta í reksturinn samkvæmt þessari áætlun (Forseti hringir.) og það eru einhver ytri mörk á því hvað við getum aukið útgjaldastigið mikið.