146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[12:30]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Það var kallað á það að við hækkuðum það hlutfall af verðmætasköpun í samfélaginu sem færi í heilbrigðismálin. Það er það sem 86.000 landsmenn fóru fram á í stærstu undirskriftasöfnun Íslandssögunnar. Og svo eru rangar tölur þarna, benda forsvarsmenn heilbrigðisstofnunar á, um það hvernig staðan er á Ísland miðað við önnur Norðurlönd. Er það forsætisráðherra sem ætti að kalla eftir því að þetta sé leiðrétt? Ég er búinn að spyrja um þetta sjálfur. Gengur það ef þetta eru rangar tölur sem byggt er á frá OECD um útgjöld til heilbrigðismála? Gengur það að ekki sé tekið á því með einhverjum hætti? Hvernig myndi forsætisráðherra þá bregðast við? Forsendurnar eru rangar, það er mjög alvarlegt.

En varðandi heildaráætlun um hvernig þetta líti út hvað varðar heilbrigðismálin: Eins og hæstv. forsætisráðherra nefnir verður kúfur þarna út af því að það er verið að byggja mannvirki, sem er gott. En svo lækkar það þá aftur. En á sama tímabili eykst eftirspurnin, eins og kemur fram, vegna hærri aldurs þjóðarinnar. Eftirspurnin eykst. Þá verður þetta dýrara. Þar af leiðandi verðum við að nota meira af vergri landsframleiðslu til að sinna þjónustunni. En jafnframt lækkar kúfurinn. Kúfurinn í aukningu til heilbrigðismála í þessari fjármálaáætlun er spítalinn. En þá vantar sjúkrahúsþjónustuna og aðra þætti. Á sama tíma er gert ráð fyrir 20% hagvexti. Það er 20% hagvöxtur, spítalinn kemur sem kúfur inn og dettur síðan aftur út þannig að við endum með lægra hlutfall af verðmætasköpun landsins til heilbrigðiskerfisins. Það er það sem þetta segir. Sér hæstv. forsætisráðherra þetta líka eða er ég bara að misskilja?