146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[13:24]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Mig langar að fjalla um þátt sem hefur minna verið fjallað um í þessari umræðu, en um hann er fjallað í 18. kafla. Það er: Menning, listir, íþróttir og æskulýðsmál. Undir það falla safnamál, menningarstofnanir, menningarsjóðir og íþrótta- og æskulýðsmál. Ég hef oft velt því fyrir mér, sérstaklega með samkeppnissjóðina, með hliðsjón af þeirri reynslu sem ég hef úr háskóla- og vísindaumhverfinu, að það er eftirtektarvert að úthlutanir þegar kemur að styrkjum til menningar og lista hljóta oft talsvert meiri athygli en úthlutanir á styrkjum til vísindastarfs og mæta oft meiri gagnrýni. Líklegast er það út af því að almenningur telur sig kannski hafa meira vit og þekkingu á menningu og listum en sumum þeirra sérhæfðu verkefna sem lúta að vísindastarfi.

Í þessum kafla er fjallað um menningarsjóði. Þar segir, með leyfi forseta:

„Um starfsemi innan málaflokksins gilda 14 sérlög og reglur um lögbundna og aðra sjóði. Helstu sjóðir málaflokksins eru fornminjasjóður, húsafriðunarsjóður, safnasjóður, myndlistarsjóður, launasjóðir listamanna, kvikmyndasjóður, útflutningssjóður íslenskrar tónlistar, bókasafnssjóður höfunda, tónlistarsjóður, hljóðritasjóður tónlistar, máltæknisjóður, starfsemi atvinnuleikhúsa og starfslaunasjóður sjálfstætt starfandi fræðimanna.“

Þetta er langur listi. Í kaflanum um markmið kemur fram, í markmiði 2, að það sé fjöldi sjóða sem sé mælikvarði á árangur í þessu en að viðmiðið verði skilgreint árið 2018. Mig langar að fá heildarsýn ráðherrans á þessi efni, hvort ég eigi að skilja það sem svo að til standi að fækka sjóðum og samtvinna með einhverjum hætti. Ég spyr einnig hvort til standi að þessi hlutföll sem eru í dag milli fastra menningarstofnana og sjóða, sem eru sirka þrír á móti fjórum, breytist eitthvað í framtíðinni.