146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[13:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Það sem þarna er átt við er vinna sem hófst í raun í tíð síðustu ríkisstjórnar með fjármögnun upp á, ef ég man rétt, 50 millj. kr. frekar en 60. Fyrrverandi menntamálaráðherra setti á laggirnar starfshóp sem er nú með seinni skipunum að skila af sér tillögum að gerð markáætlunar og áhersluverkefna fyrir næstu fjögur til fimm ár. Þetta er hið mætasta og besta verkefni. Hvernig svo sem því verki vindur fram er augljóst að út úr því koma tillögur til útgjalda en ekki síður tillögur um það með hvaða hætti við getum þétt samstarf hins opinbera og atvinnulífsins. Þar er ríkur skilningur og mikill vilji til að koma að því verki að styrkja grunninn undir notkun íslensku á tæknihliðinni. Það er einfaldlega of snemmt af mér að segja nokkuð til um með hvaða hætti við göngum til verka en það er einbeittur vilji þess sem hér stendur að þetta verkefni verði tekið mjög alvarlega. Við munum líka gera ráðstafanir til að geta sinnt því með einhverjum hætti á verkefnasviði Vísinda- og tækniráðs. Þar höfum við lagt ákveðnar áherslur sem við gerum ráð fyrir að geta tekið með okkur í þessu efni.