146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[15:56]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Frú forseti. Það væri stórkostlegt ef maður gæti farið í mörg stór mál fyrir minni pening eða engan pening.

Aðeins varðandi þrífösun, þriggja fasa rafmagn. Það er unnið að því og við erum að undirbúa að skipa starfshóp til að greina möguleika og gera tillögur um uppfærslu á raforkuflutningskerfinu í dreifbýli með áherslu á þrífösun rafmagns. Núverandi áætlanir um endurnýjun á flutningskerfi raforku í þriggja fasa dreifikerfi ná allt til ársins 2034 sem er auðvitað ótrúlega langur tími og erfitt að halda því fram að það falli saman við einhverja byggðastefnu. En það hvað þrífösun kostar er eitt af því sem starfshópurinn mun leggja mat á og skila tillögum um.

Varðandi aðhaldið eru 2% lögð á heilt yfir en það er svo útfærsluatriði hvernig aðhaldið er tekið út. Það kemur þá til skoðunar hvar það er, ef einhverju þarf að hlífa og það leggst á annars staðar. Það er útfærsluatriði sem við munum hefja vinnu við þegar þessi áætlun hefur fengið sína þinglegu meðferð og verið samþykkt.

Það sama á við um þau verkefni sem ég hef nefnt að við viljum ráðast í. Þetta snýst allt um það í hvað fjármunirnir muni fara, hvernig við ætlum að forgangsraða. Við munum ekki geta gert allt en hér eru þessir áherslupunktar. Með því er maður að segja að maður muni setja þau mál í forgang. En það er alveg rétt að þetta mun allt kosta fjármagn.