146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[18:58]
Horfa

Valgerður Gunnarsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir þetta svar. En við sem búum í þessu landi núna þurfum að lifa. Við þurfum að hafa atvinnu. Við erum í þeirri stöðu núna að það skortir í rauninni á flutningsgetu á rafmagni um landið, t.d. á Vestfjörðum og ekki síður á Norðausturlandi. Menn eru með ákveðnar áætlanir í því. En ég var hins vegar að velta fyrir mér, þar sem ég veit að ýmsir aðilar hafa hug á að byggja minni virkjanir sem eru þá innan við þessi 10 megavött, sem eru markið, hvort við sjáum þar einhverja möguleika til þess að ná sátt í framleiðslu á rafmagni með vatnsafli og hvort við getum með þessum minni virkjunum kannski verndað náttúru og menningarminjar betur. Hvort þær fari betur í landslaginu eða hvort stærðin á virkjunum skipti kannski ekki máli.

Það er hins vegar alveg ljóst að það er áhugi til staðar hjá aðilum að fara í minni virkjanir. Þeir telja margir að verið sé að gera náttúrunni hærra undir höfði og raska minna með því.