146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[19:42]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Hvort það eru vonbrigði fyrir mig sem ráðherra samgöngumála að meira fjármagn skuli ekki veitt er kannski aukaatriði í þessu máli. Aðalatriðið er að það er Alþingi sem ákveður hversu mikið fer til hvers málaflokks. Alþingi ákvað, við afgreiðslu fjárlaga fyrir þetta ár, að forgangsraða í þágu heilbrigðis- og velferðarmála. Það hefur verið mikill þrýstingur víða í samfélaginu eins og við þekkjum. Vissulega mun þessi upphæð ekki duga nema skammt til að fara í það átak sem að okkar mati þarf að fara í í samgöngukerfinu. Það er þess vegna sem við höfum sett í gang vinnu við að leita annarra mögulegra leiða í þessu. Við þurfum eins og aðrir að vera raunsæ í þeim kröfum sem við gerum og hvernig því fjármagni er ráðstafað sem er til úthlutunar á hverju ári.

Það hefur ekki svo að ég viti til verið tekin nein ákvörðun um það hjá ríkisstjórn eða annars staðar að framselja eignir ríkisins til að eyrnamerkja það sérstaklega samgöngumálum. Áhugaverðar hugmyndir á þessu sviði hafa verið viðraðar. Mér finnst vel koma til greina að horft sé til þeirra leiða. Það gæti þá verið hluti af því átaki sem við þurfum að fara í. Verkefnin eru ærin og við munum þurfa að leita óhefðbundinna leiða til að ná þeim árangri og stíga þau skref sem nauðsynleg eru.

Framlög á þessu ári til samgöngumála, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, eru ríflega 1%, ef ég man rétt.