146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:48]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég ætla að beina nokkrum spurningum til hæstv. sjávarútvegsráðherra og byrja á veiðigjöldum. Ég spyr hvort reiknað sé með að þau hækki á þeim fimm árum sem áætlunin nær til, hvort áfram verði gert ráð fyrir afslætti á minni útgerðir sem hafa verið með afslátt út af skuldum. Kemur til greina að þrepaskipta veiðigjöldum eftir stærð útgerða? Er gert ráð fyrir því að lagt verði á auðlindagjald á nýtingarleyfi fyrirtækja í sjókvíaeldi á þangi og þara? Ef svo er kemur til greina að sveitarfélög fái hlut af því gjaldi?

Ég spyr líka um málefni Hafrannsóknastofnunar, Fiskistofu, Matvælastofnunar og Matís, allra þessara mikilvægu stofnana sem sjá um eftirlit og vöktun og grunnrannsónir — Hafrannsóknastofnun er í sjálfu sér grundvöllur að sjálfbærri nýtingu sjávarauðlindarinnar. Verða auknar fjárveitingar til þessara málaflokka? Af ritinu að dæma þá sýnist mér að ekki verði meiri aukning en um 307 milljónir frá 2017–2022. Ég spyr hvort það sé rétt lesið úr hjá mér. Matvælastofnun er til dæmis með eftirlitshlutverk gagnvart sívaxandi sjókvíaeldi og velferð dýra og sárvantar fé. Við í atvinnuveganefnd vorum með starfshóp sem er að endurskoða lagaramma eða regluverk í kringum sjókvíaeldi og heyrðum á fundi í morgun að þar vantar sárlega fjármagn til að sinna þessu mikilvæga hlutverki.