146. löggjafarþing — 57. fundur,  6. apr. 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[22:43]
Horfa

Nichole Leigh Mosty (Bf):

Virðulegi forseti. Tvær mínútur eru alls ekki nægilega mikið til að eiga samtal við hæstv. heilbrigðisráðherra um alla þá málaflokka sem þörf er á að ræða. Ég hef ákveðið að ræða tvennt í dag sem er afar mikilvægt í þeim tilgangi að efla og bæta heilbrigðiskerfið.

Við í Bjartri framtíð höfum talað fyrir að efla heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað í heilbrigðiskerfinu og stórauka þjónustu þar, m.a. með auknu aðgengi að sérfræðingum og aukinni þjónustu. Ég tel afar mikilvægt að unnt sé að bæta þjónustu og hagræða með því að nýta betur þá þekkingu og reynslu sem hinar fjölmörgu starfsstéttir búa yfir.

Í fjármálaáætlun til ársins 2022 er hægt að finna þrjú mælanleg markmið sem ég tel vera áherslumál Bjartrar framtíðar í framkvæmd. Ég fagna því. Ég myndi óska eftir að hæstv. heilbrigðisráðherra ræði aðeins þessi markmið og áhrif þeirra á uppbyggingu heilbrigðiskerfisins hér á Íslandi.

Þessi markmið eru, með leyfi forseta, hvað varðar heilsugæsluna:

1. Skilvirkari þjónusta fyrir sjúklinga sem leita til heilsugæslu.

2. Bætt aðgengi sjúklinga að fjölbreyttri geðheilbrigðisþjónustu óháð efnahag og búsetu.

3. Aukin fræðsla og stuðningur í boði fyrir sjúklinga varðandi lífsstíl og lífsstílstengda sjúkdóma.

Ég væri sérstaklega þakklát ef hæstv. ráðherra ræddi eins og hægt er í tveggja mínútna samtali sérstaklega um geðheilbrigðismál sem hann kom aðeins inn á þar sem hér hefur verið gagnrýnt af hv. þingmönnum skortur á tölum tengdum fjárframlögum. Fyrir mína parta er mikilvægara á þessu stigi, afar mikilvægt, að sjá að hér eru aðgerðir sem eru framkvæmanlegar og sem formaður velferðarnefndar tek ég hluta af ábyrgðinni hvað varðar rökræður og að berjast fyrir meira fjármagni.

Geðrænir sjúkdómar eru ein helsta ástæðan fyrir nýgengi örorku eins og við ræddum og kosta þjóðfélagið mikið fé í formi lyfja, lækniskostnaðar og tapaðra vinnustunda. Aukið aðgengi að sálfræðingum á heilsugæslum og í framhaldsskólum landsins er í stefnunni okkar en ég myndi vilja heyra aðeins meira um hvernig þetta er hugsað því að mér er persónulega mjög umhugað um þetta málefni.