146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

húsnæðismál.

[16:06]
Horfa

Lilja Alfreðsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Þau sýna svart á hvítu að það er ekki mikil stefnumótun sem liggur að baki þessari sölu á jörðinni á Vífilsstöðum. Ástæða þess að ég nefni að þetta sé á hagstæðu verði er að ég er hreinlega að vitna í fésbókarsíðu hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra. Ég er ekki sjálf að leggja nokkurt mat á slíkt.

Það er afskaplega mikilvægt að stefnumótun eigi sér stað varðandi svona stóran málaflokk. Þetta snýr að væntingum á markaði og áætlanagerð sveitarfélaga og heimila. Ég óska eftir frekari svörum og geri líka kröfu til hæstv. ráðherra um að hann sé búinn að skipuleggja þetta og hafi og geti veitt þinginu skýr svör um þennan mikilvæga málaflokk.

Ég spyr kannski líka: Var hann kannski fullfljótur á sér, þegar hann var að breyta starfstitli sínum á sínum tíma og taka út heitið húsnæðismálaráðherra, að sleppa því í sínum starfstitli?