146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

efling verk- og iðnnáms.

277. mál
[18:31]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Það hríslaðist um mig gleði þegar ég heyrði hæstv. ráðherra tala um að hann hefði þá sýn að efla starfsmenntun. Hann ætlar að vinna að eflingu hennar, byggja brýr milli skólastiga og efla starfsmenntun í landinu. Svona höfum við talað lengi á hátíðis- og tyllidögum.

Gleði mín felst í því að hæstv. ráðherra lætur þessi orð falla hér á mánudegi. Þess vegna hef ég trú á að það hljóti eitthvað að gerast núna. Við stöndum frammi fyrir því að ákveðnar iðngreinar eru að deyja út. Það er ekki endurnýjun í þeim. Það er ekki gott. Við erum að glata mikilvægri þekkingu á handverki og framleiðslu sem við megum alls ekki týna. Þess vegna vænti ég þess að hæstv. ráðherra geri nú eitthvað í þessum málum. Ég heyri ekki annað en að við séum öll sammála um að það er það sem við viljum. Hann fær allan minn stuðning í því efni.