146. löggjafarþing — 58. fundur,  24. apr. 2017.

rannsóknarsetur um utanríkis- og öryggismál.

305. mál
[18:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fyrirspurnina. Við erum alveg sammála um mikilvægi þess að vel sé haldið utan um þekkingu og reynslu á sviði utanríkis- og öryggismála og afar brýnt sé að stuðla að efnisríkri umræðu um þennan mikilvæga málaflokk. Á það ekki síst við núna þegar margvíslegar áskoranir eru uppi í alþjóðakerfinu og að sama skapi mikil tækifæri fyrir hagsmunagæslu okkar Íslendinga. Nægir þar að nefna útgöngu Breta úr ESB, þróun Evrópusamstarfs, viðsjár í öryggismálum Evrópu, loftslagsmál og þar fram eftir götunum.

Hvað efni fyrirspurnar hv. þingmanns varðar þá er því fyrst til að svara að ríkisstjórn Íslands vísaði þingsályktun um stofnun sérfræðiseturs á sviði utanríkis- og öryggismála til þverpólitískrar þingmannanefndar sem sett var á fót með þingsályktun árið 2011 til að undirbúa þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland. Þar fékk ályktunin sem þingmaður vísar til sérstaka skoðun.

Í skilabréfi nefndarinnar sem laut styrkri stjórn Valgerðar Bjarnadóttur, þáverandi þingmanns Samfylkingar, og var skipuð fulltrúum allra flokka á þingi, þar með talið Birgittu Jónsdóttur, fulltrúa Hreyfingarinnar ásamt mörgum öðrum góðum hv. þingmönnum, kom fram að nefndin taldi ekki forsendur fyrir því að setja á fót slíkt rannsóknarsetur, einkum af fjárhagsástæðum. Sagði nefndin að fyrsta kastið yrði að byggja á þeirri þekkingu og reynslu sem fyrir væri og væri það nærtækast að horfa til háskóla- og fræðasamfélagsins. Í bréfinu kom fram að þegar aðstæður leyfðu og fjármunir væru fyrir hendi væri rétt að skoða á ný stofnun slíks sérfræðiseturs. Jafnframt taldi nefndin brýnt að stuðla að opnari og upplýstari umræðu um utanríkis- og öryggismál og benti á að heppilegast væri að nýta vinnu við þjóðaröryggisstefnuna til þess. Nefndin benti einnig réttilega á að breið samstaða um þjóðaröryggi gæti einnig skapast með opinni og lýðræðislegri umræðu um málaflokkinn.

Á síðasta þingi voru samþykkt lög um þjóðaröryggisráð mótatkvæðalaust og í mikilli pólitískri sátt. Ég hygg að þingheimur allur sé mér sammála um að lögin og það þverpólitíska ferli sem mótaði þjóðaröryggisstefnuna hafi verið afar mikilvægt skref sem hafi það að meginmarkmiði að efla þennan málaflokk hér á landi.

Nú hillir undir að þjóðaröryggisráð hefji störf. Hvað fyrirspurn þingmannsins varðar þá er ljóst að þjóðaröryggisráðið mun sinna þessum þætti afar vel. Í 4. gr. laga um þjóðaröryggisráð kemur þannig skýrt fram að ráðið skal í samvinnu við háskólasamfélagið, hugveitur og fjölmiðla, beita sér fyrir opinni og lýðræðislegri umræðu um þjóðaröryggismál og eflingu fræðslu og upplýsingagjafar um þau mál. Þannig má segja að að teknu tilliti til þeirra forsendna sem nefndin gaf sér á sínum tíma og árangur þess þverpólitíska starfs sem átt hefur sér stað undanfarin ár hafi náðst farsæl lending í þessum málum.

Þar fyrir utan, vegna þess að ég er sammála hv. þingmanni um upplegg hans með þessari fyrirspurn, þá vil ég nota tækifærið og nefna þá yfirgripsmiklu vinnu sem við höfum hafið í utanríkisráðuneytinu við að skoða með heildrænum hætti hagsmunagæslu okkar til framtíðar. Í því ferli er verið að velta öllum steinum og sjá hvernig utanríkisþjónustan geti nýtt betur tæki sín og tól til að gæta hagsmuna þjóðarinnar og atvinnulífsins. Veigamikill þáttur í þeirri vinnu er að skoða hvernig betur er hægt að nýta þá miklu reynslu og þekkingu á utanríkismálum sem safnast hefur saman innan utanríkisþjónustunnar til skilvirkrar stefnumótunar og ekki síður að skoða leiðir með hvaða hætti unnt er að miðla þessari reynslu og þekkingu til almennings og hagsmunaaðila. Þetta er spennandi vinna. Ég er fullviss um að hún muni skila árangri og styðja enn frekar við hlutverk þjóðaröryggisráðsins sem og að ná fram þeim markmiðum sem ég og hv. þingmaður erum augljóslega sammála um að þegar við mótum stefnu í okkar öryggis- og hagsmunamálum á það byggja á sem allra bestri þekkingu. Það gerist hins vegar ekki af sjálfu sér. Það þarf að huga að því.

Eins og ég nefndi í svari mínu þá erum við með bæði í fræðasamfélaginu og ekki síður í utanríkisþjónustunni með mikla þekkingu, en það mætti koma henni betur á framfæri til allra, ekki síst til almennings. Það er eitt af því sem er uppleggið með þeirri vinnu sem ég vísaði til á vettvangi utanríkisþjónustunnar sem ég á von á að við fáum að sjá niðurstöður í fyrr en seinna.