146. löggjafarþing — 59. fundur,  25. apr. 2017.

tóbaksvarnir.

431. mál
[18:33]
Horfa

Hildur Sverrisdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Mig langaði að koma hingað upp og taka undir mjög margt sem hv. þingmaður fór yfir. Mig langar að nefna rannsóknirnar. Þær eru margar og víðfeðmar og stangast að mörgu leyti á. Ég orðaði það sem svo í ræðu minni áðan að sú umræða biði okkar í nefndinni þegar við fengjum umsagnir. En varðandi málflutning hv. þingmanns um að rannsóknaniðurstöður væru fleiri sem væru efins en hinar langaði mig örstutt sem mótvægi við því af hverju ég orðaði það þannig, því að þetta er flóknara mál en svo, að drepa niður í grein, með leyfi forseta, eftir íslenskan lækni sem heitir Guðmundur Karl Snæbjörnsson, sem ber yfirskriftina „Stærstu mistök heilbrigðismála í uppsiglingu?“ Þar fer hann yfir að margir helstu vísinda- og fræðimenn á þessu sviði hafa gagnrýnt WHO fyrir afstöðu sína og halda því fram að rafrettan sé eitt það mikilvægasta sem komið hefur fram í heilbrigðismálum seinni tíma. Gagnrýnin spannar yfir 90 þús. greinar þar sem fræðimenn skiptast á skoðunum um þetta mál. Bara sem dæmi segja bæði fyrrverandi landlæknir Bandaríkjanna og fyrrverandi framkvæmdastjóri Alþjóðafélags lækna að með rafrettunni sé komið stórkostlegt tækifæri fyrir okkur til að ljúka baráttunni við sígarettuna og losa okkur við skaðsemi hennar og bjarga þannig ómældum fjölda mannslífa. Ég vildi koma inn á þetta einnig varðandi það sem er fullyrt um það sem Krabbameinsfélagið hefur viðhaft, sá málflutningur um rannsóknir um efni og annað hefur líka verið gagnrýndur. Þessi vinna bíður okkar í nefndinni því að þetta er flóknara en maður myndi halda í fyrstu.