146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

framlög til þróunarmála.

[15:27]
Horfa

forsætisráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég vil í fyrsta lagi halda því til haga að það er ekki verið að draga úr framlögum til þróunaraðstoðar. Bæði er það þannig að hlutfallið sem við styðjumst við er ekki að lækka, þ.e. hlutfall af landsframleiðslu, og á sama tíma er landsframleiðslan í örum vexti sem þýðir að við erum að setja stóraukna fjármuni í þróunaraðstoð í krónum mælt. Það er hins vegar alveg rétt hjá hv. þingmanni að við erum, miðað við þau markmið sem við höfum sett okkur í gegnum tíðina, enn mjög langt frá því að vera komin í mark. Við erum með þessa skuldbindingu, 0,7%, og við höfum í reynd hér í þinginu verið að horfa á það að komast a.m.k. hálfa leið, upp í um 0,35%. Það er alveg rétt að það hafa verið uppi fögur orð í þinginu um að þetta skuli gert bara á morgun eða hinn, þ.e. í fjárlaga- og ríkisfjármálalegu samhengi eftir svona þrjú til fjögur ár.

Framlögin á undanförnum árum fóru lægst á árunum 2011 og 2012, ólíkt því sem hv. þingmaður virðist halda, en þá fóru þau alveg niður í 0,2%. Síðan þá hafa þau verið að stíga. Við erum komin með þau núna upp í um 0,25% og það þýðir að við höfum verið að hækka framlögin frá því sem lægst var á árinu 2010, 2011 rétt rúmlega 3,5 milljarðar, upp í um 7 samkvæmt áætluninni sem hér er til umræðu. Það er auðvitað veruleg aukning.

Þetta mál verður að fá sinn sess í umræðunni um skiptingu fjármunanna til framtíðar. Við erum að bæta í. (Forseti hringir.) Okkur gengur illa að hækka hlutföllin m.a. vegna þess að það er svo mikil áskorun (Forseti hringir.) þegar landsframleiðslan vex segjum um 7% eins og á við í fyrra. (Forseti hringir.) Þessi málaflokkur er eins og allir aðrir málaflokkar undirsettur því (Forseti hringir.) lögmáli sem svo erfitt er að fást við í (Forseti hringir.) þinginu að peningarnir eru af skornum skammti.