146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

sveitarstjórnarlög.

375. mál
[17:16]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Mér finnst þetta mál hvergi fullrætt úr því að hæstv. ráðherra hefur ekki fallist á velviljaðar og gáfulegar tillögur um að hann dragi málið til baka. Þá þarf að ræða þetta betur.

Í fyrsta lagi minni ég á að ákvæði gildandi laga komu inn með heildarendurskoðun á sveitarstjórnarlögunum, viðamikilli endurskoðun þar sem m.a. fjármálareglurnar komu til sögunnar og margt fleira. Það var nefnd skipuð fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga, og reyndar ráðuneytisins vissulega, sem samdi frumvarpið. Frumvarpið var beinlínis unnið af starfshópi. Það kom fram á fundum samgöngunefndar í umfjöllun um málið að það var unnið í mikilli samvinnu við ekki bara Samband íslenskra sveitarfélaga heldur sveitarfélög í landinu almennt. Þau fengu með reglubundnu millibili í nefndarstarfinu að koma sjónarmiðum á framfæri við vinnslu málsins. Það er að öllu leyti ósambærilegt við þann málatilbúnað sem hér er á ferðinni. Niðurstaðan varð samstaða í þessum starfshópi um nýja uppsetningu á römmunum um fjölda sveitarstjórnarfulltrúa eftir því hve fjölmenn sveitarfélögin væru, í 11. gr. Það stefndi vissulega í að breytingin, a.m.k. fyrst um sinn, hefði fyrst og fremst áhrif í Reykjavík. En á það var bent að hún gæti síðan í fyllingu tímans, innan kannski tíu, fimmtán ára í viðbót, farið að hafa áhrif á hin stóru sveitarfélögin, sérstaklega ef eitt þeirra, t.d. Kópavogur, ryfi 50 þús. íbúa múrinn. Menn settu þarna upp stiga sem er í tilteknu rökrænu samhengi um það hversu fjölskipuð og breið sveitarstjórn skuli vera eftir því hvert íbúaundirlagið er.

Það segir um þetta í umsögn um 11. gr. í frumvarpinu á sínum tíma að þessi tillaga, sem muni þýða að að undangengnum aðlögunartíma fjölgi sveitarstjórnarmönnum í Reykjavík í a.m.k. 23 úr 15, standi í samhengi við ákvæði frumvarpsins um innköllun varamanna, breytta nálgun í þeim efnum. Reynslan hafi sýnt að í Reykjavík væru í reynd fleiri einstaklingar virkir sem borgarfulltrúar en þeir 15 sem kosnir eru. Nær sé að tala um að um 30 sveitarstjórnarmenn séu þar virkir vegna þeirra skyldna sem lagðar eru á varamenn. Hvers vegna þá að kalla þennan hóp varamenn þegar þeir eru í reynd nánast að öllu leyti eins og þeir væru fullkjörnir sveitarstjórnarfulltrúar? Það er það sem borgin hefur í hyggju og undirbýr, að hún geri breytingar í samræmi við það að hún verður með fjölskipaðri borgarstjórn. Þá verður ekki sama þörfin fyrir að kalla varamenn til verka og borga þeim laun. Þess vegna kemur út sú niðurstaða sem hér var vitnað til, að sennilega sparar þetta frekar fjármuni hjá borginni en eykur útgjöld.

Hvers vegna ekki að halda sig bara við ákvæði laganna um að nú fjölgi nokkuð sveitarstjórnarmönnum í langstærsta sveitarfélagi landsins og þeir skuli verða a.m.k. 23, ef við höfum t.d. í huga að sveitarstjórnarfulltrúar í sveitarfélagi sem telur 10.200 íbúa geta líka verið 15? Að vísu geta þeir bara verið 11. En það gæti einhver sveitarstjórn sem vildi ganga í þessa átt, breikka aðkomu íbúanna og fjölga kjörnum fulltrúum og endurspegla betur fjölbreytni samfélaganna, ákveðið að vera með 15 sveitarstjórnarfulltrúa. Það væri svolítið skrýtin niðurstaða ef það væru 15 sveitarstjórnarfulltrúar í 10.200 manna sveitarfélagi en líka bara 15 sveitarstjórnarfulltrúar í 120 þús. manna borg.

Mér finnst hæstv. ráðherra algerlega horfa fram hjá samræmi og samhengi hlutanna sem er í gildandi lögum. Þetta kemur eins og fleinn inn í það, óumbeðið, og sprengir upp að mínu mati þó þá samstöðu, með ákveðnum undantekningum hjá Sjálfstæðismönnum í Reykjavíkurborg, sem hefur verið um þennan ramma fram að þessu. Mér finnst þetta fara í öfuga átt og við séum að fara í öfuga átt við nánast öll Norðurlöndin þar sem almennt hefur verið (Forseti hringir.) tilhneiging til að fjölga í hinum almennt kjörnu borgarstjórnum eða sveitarstjórnum (Forseti hringir.) og fjöldinn er fleiri tugir í sveitarfélögum sem eru alls ekkert endilega fjölmennari en Reykjavík.