146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

sveitarstjórnarlög.

375. mál
[17:31]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það fer nú væntanlega ekki fram hjá neinum að deildar meiningar eru á milli hv. þingmanna í þessu máli. Það hefur svo sem komið fram áður, kom fram einmitt þegar þessi lög voru sett og meiri hlutinn ákvað að fara þessa leið á sínum tíma. Það er enn og aftur, og við það verð ég að gera athugasemdir, talað hér eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gerði rétt í þessu í ræðu sinni, að verið sé að þröngva niður kjörnum fulltrúum í borginni. Það er talað eins og verið sé að þröngva því niður. Ég vil bara mótmæla því og biðja fólk að vera málefnalegt. Ef aðstæður eru með þeim hætti sem hv. þingmaður telur og aðrir sem hér hafa talað, að það sé mjög brýnt að fjölga borgarfulltrúum, þá eiga þessir flokkar aðild að meiri hluta í borgarstjórn eins og staðan er núna. Þeim er þá í lófa lagið að gera það. Það er enginn að taka af þeim það vald. Það er einmitt verið að færa þeim ákvörðun sem Alþingi tók, Alþingi þrengdi þennan ramma og sagði: Þið verðið að fjölga í næstu kosningum. Við erum einfaldlega að segja: Ef þið teljið að það þurfi að fjölga borgarfulltrúum er það bara í ykkar höndum að gera það. En það ætlar enginn að hafa áhrif á það hér að það verði gert með einhverju valdi að fækka borgarfulltrúum, eins og sumir hv. þingmann hafa látið í skína í umræðum.