146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

Matvælastofnun.

370. mál
[15:10]
Horfa

Haraldur Benediktsson (S):

Herra forseti. Ég fagna því að við séum komin á þann stað að ræða um þá ágætu úttekt sem fylgir í skýrslu um starfsemi Matvælastofnunar. Mig langar að hverfa aftur til upphafsins, rétt eins og hv. þm. Einar Brynjólfsson gerði hér áðan, og rekja hvers vegna við erum komin á þann stað sem við stöndum á núna í umræðu um þá mikilvægu stofnun sem hér um ræðir. Við skulum byrja á því að átta okkur á því hversu gríðarlega mikilvæg stofnun Matvælastofnun er. Hún er raunverulega lykillinn okkar að mörkuðum. Hvorki meira né minna. Hún er forsenda þess að við getum boðið fram vöru, framleiðslu okkar, fyrst og fremst á sviði matvæla.

Forveri þessarar stofnunar, Landbúnaðarstofnun, var settur saman úr mörgum litlum stofnunum eins og tekið væri til í stofnanakerfi landbúnaðarráðuneytis þess tíma. Ég þykist þekkja ágætlega sögu þessarar stofnunar og aðdragandann að því að þegar Landbúnaðarstofnun var stofnuð og síðan þegar þeirri stofnun var aftur breytt með auknu hlutverki í Matvælastofnun. Raunverulega má segja einfaldlega með þeim orðum að við höfum kannski stöðugt verið að búa til stofnun og þegar við höfum náð einum áfanga var hann í raun löngu orðinn úreltur og við búin að bæta svo miklu á skrifborð þessarar stofnunar að aldrei vannst tími til að byggja upp og koma í fastan farveg hvaða vinnubrögðum við ætluðum að beita, til hvers við værum og hvernig við ætluðum að ná markmiðum okkar. Það finnst mér vera saga þessarar ágætu stofnunar í hnotskurn. Við höfum gengið vasklega fram í að sópa saman verkefnum, setja nýja löggjöf, búa til nýjar reglur og ætla síðan stofnuninni að fylgja þeim eftir. Þá sitjum við eftir með tvo meginpunkta sem þessi ágæta skýrsla rammar svo ágætlega inn: Matvælastofnun nær ekki að sinna öllum lögbundnum skyldum sínum og mikið álag og annir eru hjá stjórnendum og starfsmönnum; og í öðru lagi, stofnunin starfar ekki nægilega vel sem ein samstillt heild. Ímynd bæði meðal eftirlitsþega og í samfélaginu í heild er ekki nægilega góð. Þetta er verkefnið sem ágætir skýrsluhöfundar draga hérna fram með svo skilmerkilegum hætti að við verðum að ráðast í.

Rétt eins og ég sagði í upphafi: Matvælastofnun er einhver mesta grundvallarstofnun sem matvælaframleiðendur á Íslandi eiga. Lykillinn að markaðnum. Þá eru hagsmunir að baki starfsemi Matvælastofnunar gríðarlegir og fjölþættir. Tryggja þarf að farið sé að lögum og reglum um matvæli úr dýraríkinu og í sinni víðfeðmustu mynd, dýravelferð og aðbúnað matvælaframleiðslu, verndun lífríkis, einkum dýraríkis, með eftirliti með dýrasjúkdómum hvers konar, hvort sem er vegna innflutnings og útflutnings dýra og dýraafurða eða sjúkdóma sem geta breiðst út og haft áhrif á alidýr og villt dýr, almenn dýravernd sem lýtur að velferð og meðferð dýra, grundvöllur matvælaöryggis, t.d. með því að ekki berist smit eða eitrun í fólk úr matvælum og að almenn starfsemi á sviði matvælaframleiðslu á þessu sviði standist kröfur neytenda og aðrar opinberar kröfur. Matvælastofnun er útvörður milliríkjaviðskipta með lifandi dýr og matvæli, hvort sem er úr sjávarútvegi eða landbúnaði, og aðrar afurðir. Hún er grundvöllur þess að skapa aðgang að erlendum mörkuðum og vera trúverðugur eftirlitsaðili sem skapar traust á íslenskri matvælaframleiðslu og hefur víðtæk tengsl við sambærilega aðila, ekki einungis í EES löndum heldur um allan heim. Framkvæmd búvörusamninga þarf að vera hnökralaus og tryggja að útgreiðslur fylgi þeim reglum og opinberu viðmiðunum sem eru skilyrði þess að bændur njóti framlaga samkvæmt samningum.

Þegar við drögum það saman sjáum við hversu gríðarlega miklir hagsmunir eru að baki starfsemi Matvælastofnun og hversu óskaplega mikilvægt er að hún sé bæði skilvirk og hafi traust gagnvart starfsemi sinni. Matvælastofnun gegnir því grundvallarhlutverki í samfélaginu okkar.

Lagðar eru til margvíslegar tillögur til úrbóta í skýrslunni sem við ræðum hér. Má telja þær margar mjög skynsamlegar og eins umræðu eftir þeim tillögum sem lengi hefur verið beðið eftir. Þær tillögur snerta alla starfsemi stofnunarinnar og einnig ráðuneytið sem hún heyrir undir. Þær snerta einnig þingið í því skyni að það vantar skýrari heildarlög um stofnunina, rétt eins og hv. ræðumaður hér á undan, Einar Brynjólfsson, rakti svo ágætlega. Ég tek undir það með honum. Frumvarp þess efnis er reyndar í undirbúningi en hefur ekki komið fram.

Miklar breytingar hafa orðið á því regluverki sem stofnunin starfar eftir. Stærsta breytingin eru ný heildarlög um velferð dýra, tilsvarandi reglugerðir og verklagsreglur um álagningu sekta og fleira sem er sá verkfærakassi, ef orða má svo, sem var ekki að fullu tilbúinn fyrr en undir lok ársins 2015 þannig að ekki var hægt að segja að full virkni væri komin á. Ég held að það sé mikilvægt að við rifjum það upp, sérstaklega í ljósi þess að mögulega má segja að Brúneggjamálið hafi velt þessu þunga hlassi. Umræðan sem varð til þess að þessi skýrsla var smíðuð helgast fyrst og fremst af því að þeir verkferlar og sú löggjöf sem eru ramminn utan um eftirlit með velferð dýra og tilsvarandi verklagsreglur voru ekki tilbúin fyrr en seint á árinu 2015. Það skýrir kannski að einhverju leyti að það hræðilega mál kom upp að því leyti að ef við hefðum haft þær reglur og verklagsreglur tilbúnar fyrr hefðum við hugsanlega gengið snarpar fram í því máli.

Allt frá því að stofnunin tók til starfa fyrir bráðum áratug hafa mörg verkefni bæst við. Stundum hefur ekki verið hugsað til enda hvernig ætti að framkvæma mörg þeirra. Alþingi hefur veitt verulega fjármuni til starfseminnar. Þeir sem sæta eftirliti hennar greiða auk þess hundruð milljóna í eftirlitsgjöld eða nær hálfum milljarði króna af þeim 1.700 milljónum sem heildarumfang stofnunarinnar er.

Þarna eru gríðarlegir fjárhagslegir hagsmunir að baki, sem ég held að sé rétt að við gaumgæfum vandlega hvernig eru uppbyggðir við endurskoðun laga um Matvælastofnun og hvernig við byggjum upp slíka gjaldskrá sem stofnunin fjármagnar sig með. Ég get sagt frá þeirri reynslu að það var afskaplega ógagnsæ vinna og erfið að rýna áætlanir stofnunar sem átti að vera rökstuðningur fyrir gjaldskrá á hverjum tíma.

Ég lærði í öðru starfi sem ég tók við fyrir rúmum áratug síðan og fór að kynnast umræðum um landbúnað og matvælaframleiðslu í öðrum löndum, eins og t.d. Danmörku, sem er fyrst og fremst matvælaframleiðsluríki rétt eins og við Íslendingar að verulegu leyti, að sá harði heimur og það umhverfi sem umræður um dýravelferð og dýravelferðarmál eru í, sem komið var þar upp úr árunum 2000–2003, 2004, er að skella á okkur núna af fullum þunga hér heima. Við erum að fóta okkur í þeirri umræðu. Okkur finnst margt erfitt og margt þungt í henni. Mörgum bændum finnst erfitt að takast á við hana. En hún er hins vegar ákaflega mikilvæg, að við nálgumst hana með réttum tækjum og tólum. Í þessari skýrslu, sérstaklega þriðja hluta hennar, er mikið fjallað um dýravelferð og matvælaeftirlit. Þar eru að mínu mati rakið með afskaplega skilmerkilegum hætti hvernig einstaka þjóðir nálgast þetta mikilvæga starf.

Hæstv. ráðherra staldraði hér við lönd eins og Noreg og Danmörku. Ég get verið sammála henni um að við eigum að horfa til þeirra. Ég vek sérstaka athygli á að í skýrslunni er fjallað um matvælaeftirlit Danmerkur og þær fyrirhuguðu breytingar sem þar eru nú til umræðu um að útvista hluta af því eftirliti sem þar er. Talað er um að 25% af því eftirliti megi mögulega útvista. Umræðan um dýravelferð og matvælaframleiðslueftirlit er viðkvæm en hún er ákaflega nauðsynleg. Þess vegna held ég að í skýrslunni sé að finna margar góðar ábendingar um hvernig aðrar þjóðir haga slíku eftirliti sem við getum auðveldlega tileinkað okkur. Ég staðnæmist ekki einungis við það að við ættum eingöngu að horfa til Danmerkur eða Noregs í þeim efnum og bendi sérstaklega á Lettland í því tilfelli sem rakið er svo skilmerkilega, því að í grunninn má segja að við séum að fjalla hér um vandamál sem helgast öðrum þræði af því að við erum að yfirtaka og undirgangast umfangsmikið regluverk, fámenn þjóð sem hefur tiltölulega fáa til að standa undir regluverki sem á ágætlega við í milljónasamfélögum.

Eitt af hlutverkum Matvælastofnunar er dýralæknaþjónusta. Í kjölfar þeirrar stóru kerfisbreytingar sem varð hér fyrir nokkrum misserum síðan hefur dýralæknaþjónusta í langan tíma valdið nokkrum áhyggjum dýraeigenda. Ég held að sá þáttur og við undirbúning á honum — og ég skal viðurkenna að ég kannast við gagnrýni sem fram kom við þann undirbúning. Ég tók þátt í að gagnrýna þann undirbúning með þeim orðum að þar gættum við þess ekki að flétta dýralæknaþjónustuna saman við aðra starfsemi sem rekin er á sviði dýrahalds, eins og t.d. leiðbeiningarþjónustu í landbúnaði. Ég vil beina því sérstaklega til hæstv. ráðherra að huga að því þegar hún fer að vinna úr þeim breytingartillögum sem reifaðar eru í þessari skýrslu.

Stofnunin þarf að vinna miklu meira með fólki. Þar á ég einkum við það sem fram kemur í skýrslunni, að stofnunin sé ekki nægilega samstillt og ímynd hennar ekki nógu góð. Það verður einfaldlega að laga það að eftirliti sé ekki sinnt með samræmdum hætti um land allt. Það er ósanngjarnt og veldur því eðlilega að orðspor stofnunarinnar skaðast. Síðan þarf að vinna skipulega með hagsmunaaðilum að úrbótum þar sem þeirra er þörf. Hagsmunaaðilar eiga auðvitað ekki að stýra eftirlitinu í sjálfu sér en það er vænlegra til árangurs að leita samstarfs við þá um framkvæmd þess og svara spurningum og aðstoða við að hafa hlutina í lagi. Flestir vilja hafa sitt á hreinu, ekki síst ef þeim er hjálpað til að komast þangað. Þess vegna legg ég líka áherslu á að stofnunin ræki leiðbeiningarhlutverk sitt og samstarf við hagsmunaaðila við þær breytingar sem óhjákvæmilegt er að ráðast í í kjölfarið á þessari ágætu samantekt sem við ræðum hér.