146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

evrópskt eftirlitskerfi á fjármálamarkaði.

217. mál
[19:04]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Eftir þá umræðu sem orðið hefur um þessi framsalsákvæði — ég skil algerlega hvað hv. þingmaður er að segja, að eðlilegt sé að ganga alla leið og hafa fullkomið framsalsákvæði í einhverjum þrepum, og það kemur mér í sjálfu sér ekkert á óvart að heyra þá afstöðu — þá tel ég hins vegar mjög ólíklegt að sátt náist um slíkt ákvæði. Það sem maður myndi vilja sjá er að gerð yrði gangskör að því á þessu kjörtímabili að ráðast í ákveðnar breytingar. Hv. þingmaður nefndi í fyrra andsvari að Norðmenn hefðu náð því að setja þetta inn í sína stjórnarskrá. Þar er líka svo ótalmargt sem við erum ekki með í okkar. Ég get nefnt ákvæði um umhverfisnefnd, svo að dæmi sé tekið, sem vantar svo sárlega í okkar stjórnarskrá. Ég tel skynsamlegra að fara þá leið að setja inn ákvæði um takmarkað framsal sem miðast þá við nútímann, að það sé þá sérstök og ný ákvörðun ef hafa eigi slíkt framsal víðtækara, ekki síst af því að ég met það svo að það sé skynsamlegri leið og líklegri til að ná sáttum.

Ég les hv. þingmann hins vegar svo að hann sé áhugamaður um að aftur verði farið af stað við að hreyfa við málefnum stjórnarskrárinnar. Hann kinkar hér kolli. Ég vona að sú hvatning berist úr herbúðum flokks hv. þingmanns.