146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

utanríkis- og alþjóðamál.

480. mál
[13:23]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á að þakka hæstv. ráðherra fyrir framsögu sína og ágæta skýrslu. Mig langaði til að fá að spyrja ráðherrann aðeins út í orðalag sem hann viðhafði í ræðu sinni og er einnig á bls. 6 í skýrslunni, með leyfi forseta:

„Nú, þegar umræðan hér á landi um viðskiptastefnuna er að mestu laus úr viðjum kröfunnar um aðild að Evrópusambandinu, er full þörf á að styrkja starf okkar innan EFTA og EES.“

Ég er algjörlega sammála ráðherranum um seinni hluta setningarinnar, en mér finnst fyrri parturinn býsna skringilegur og vísa þar til stjórnarsáttmálans þar sem skýrt er kveðið á um það að komi fram tillaga um þjóðaratkvæði á síðari hluta kjörtímabilsins verði það mál leitt til lykta. Mig langar að biðja hæstv. ráðherra að fara aðeins yfir það með okkur hvað hann á við með þessum viðjum.