146. löggjafarþing — 63. fundur,  4. maí 2017.

Evrópuráðsþingið 2016.

308. mál
[19:34]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ábendinguna og tel fullt tilefni til að skella í eins og eina skýrslubeiðni til ráðherra til að athuga hvað hafi verið gert til að framfylgja þessari ályktun.

Það má ýmislegt læra af því sem gerist á Evrópuráðsþinginu og þar er mjög víðtækan þekkingargrunn að finna í hinum ýmsu málum. Mér finnst ég verða að undirstrika það, út frá máli hv. þingmanns, hve mikið við getum grætt á því í þekkingu og í reynslu að nýta okkur þá miklu sérfræðiþekkingu og þann mikla mannafla og mannauð sem er að finna á Evrópuráðsþinginu. Þar er fólk boðið og búið til að aðstoða okkur við að setja okkur inn í allar þessar ályktanir og tilskipanir. Við megum ekki vanmeta hve fús þau eru til að aðstoða okkur við að verða sem best við tilmælum og ályktunum Evrópuráðsþingsins.

Ég held við ættum að nýta okkur það líka. Þótt þau þýði ekki textann fyrir okkur yfir á íslensku þá eru þau vissulega boðin og búin til að útskýra fyrir okkur óljós atriði og líka til að leiðbeina okkur um hvernig best er að standa að löggjöf þegar kemur að peningaþvætti eða aflandssvæðum eða ýmsu slíku sem Evrópuráðið hefur beitt sér fyrir að afla sér sérfræðiþekkingar um. Það hefur unnið mikla rannsóknarvinnu á því hvað telst besta lagalega úrlausnin fyrir hvern málaflokk fyrir sig, hvað svo sem það er sem Evrópuráðsþingið eða Evrópuráðið hefur aflað sér sérþekkingar um. Við megum ekki vanmeta það hvað við höfum mikla auðlind í Evrópuráðsþinginu.

Ég læt mér orð hv. þingmanns að hvatningu verða og bið um skýrslu, legg fram skýrslubeiðni, þegar kemur að málefnum um lærdóm sem draga megi af Panama-lekanum. Það verður mjög áhugavert.