146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja o.fl.

457. mál
[21:53]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er margt til í þessu. Þetta mál kemur auðvitað seint fram og það er erfitt að gera kröfu til þess að það sé afgreitt á þeim örfáu þingdögum sem eftir eru, þetta er viðamikið mál. Þó að um sé að ræða innleiðingu á tilskipun þá nær málið til sex annarra lagabálka. Það þarf auðvitað að rýna þetta mjög vel. Þess vegna hefði ég haldið að skynsamlegt væri að nota sumarið, koma á fót starfshóp, eins og við Vinstri græn leggjum til í tillögu okkar, og ná heildstætt utan um málið. Þá gætum við lagt fram vandað mál í haust sem næði utan um allan vinnumarkaðinn og skoðaði allar hliðar þessa máls. Ég held að það væri mjög í anda vandaðra vinnubragða að engu væri kastað fram í fljótræði til að bæta málið.

Varðandi rútur sem koma með Norrænu og eru hér í stuttan tíma og fara aftur, og eru með starfsfólk á allt öðru kaupi en kjarasamningar okkar gera ráð fyrir, þá er það vissulega mikið vandamál. Þetta gerir íslensku rútufyrirtækin ósamkeppnishæf. Auðvitað sér maður það fyrir sér að aðilar á Austfjörðum byggi sig upp í þeim geira svo að þeir geti sinnt komu ferðamanna til landsins og þeim rútum sem koma hingað löglega og eru með allt á hreinu í starfsemi sinni. Það þarf að sjá til þess að farið sé eftir lögum á íslenskum vinnumarkaði svo að aðrir sitji við sama borð og þau. Annað er óásættanlegt.