146. löggjafarþing — 64. fundur,  9. maí 2017.

réttindi og skyldur erlendra fyrirtækja o.fl.

457. mál
[22:27]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið.

Ég verð að segja að mér er slétt sama hvaðan gott kemur í þessum efnum. Ég er ekki að efast um þetta mál vegna þess að það sé innleiðingarmál, langt í frá. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það er margt sem við höfum notið úr Evrópuréttinum og verið þess vegna á undan þróuninni annars hér, en það á ekki við í þessu efni að mínu viti. Okkur ber að innleiða þetta, það er rétt. Við skulum gera það, en við skulum vanda okkur.

Mér finnst einhvern veginn að í umræðunni í dag og með því að hér voru veitt söguleg afbrigði þá hafi þingið sýnt þann vilja til að innleiða þessa tilskipun. Það sem við erum aðeins að benda á hér er að það þarf meira til. Það vill svo til að Vinstri græn, þingflokkur Vinstri grænna, hefur lagt þinginu í hendur verkfæri til þess að gera betur, þingsályktunartillögu sem er komin vel á veg í vinnslu í velferðarnefnd og væri hægt að samþykkja fyrir þinglok ef menn vilja í alvöru breyta einhverju í þessum efnum.