146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

jarðgöng undir Vaðlaheiði.

524. mál
[15:35]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið. Það var skýrt og greinargott. Þá liggur ljóst fyrir hver afstaða hans er almennt hvað þessi mál varðar. Ég ætla ekki að þýfga hann um neitt sem hann ekki sagði hér. En þá hlýtur að vakna upp spurning í kjölfarið og í ljósi þeirrar gríðarlega miklu þarfar sem er í þessum málaflokki. Síðast í dag sáum við í Fréttablaðinu hæstv. samgönguráðherra nefna töluna allt upp í 100 milljarða sem vantaði núna á næstu árum. Hvernig telur hæstv. fjármálaráðherra að hægt verði að fara í nauðsynlegar framkvæmdir í samgöngumálum án þess að efla tekjugrunn ríkisins umtalsvert? Hvernig er hægt að fara í allar þessar framkvæmdir öðruvísi en að leggja þá á einhvers konar sameiginleg gjöld? Hækka hæstu þrep skattkerfis, fjármagnstekjuskatt eða eitthvað slíkt. Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að framkvæma þetta ef hann telur ekki að einkafjármagnið sé töfralausnin og augljóst er að í fjármálaáætlun næstu fimm ára er þessa (Forseti hringir.) fjármuni ekki að finna?