146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

barnaverndarlög.

426. mál
[21:40]
Horfa

Flm. (Brynjar Níelsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við getum spurt þessara spurninga við hvert einasta brot sem foreldrar fremja gagnvart barni. Þetta er í raun og veru algerlega fráleit spurning. Ef við á annað borð viðurkennum að þetta sé brot gegn barni, þá eru auðvitað viðurlög við því. Það er ekkert flókið. Ef við hins vegar, og kannski er þingmaðurinn að meina það, segjum að svona tálmun sé ekki brot, þetta sé bara einkamál foreldrisins sem hefur forsjána, þá eiga menn bara að segja það. En ef þetta er brot eru að sjálfsögðu viðurlög við því eins og öllum öðrum brotum. Ef foreldri fer ekki með barnið sitt í skóla, sinnir ekki þeirri skyldu sinni, þá er í núgildandi lögum fimm ára fangelsi við því, allt að fimm ára fangelsi, ef foreldrið fer ekki með barnið til læknis, sinnir ekki heilsu þess, andlegri og líkamlegri. Þetta er ekkert öðruvísi.