146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

störf þingsins.

[10:45]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Virðulegi forseti. Á svona dögum, þegar hörmulegar árásir hafa átt sér stað í næsta nágrannaríki, finnst manni dálítið eins og allt sem maður segir sé óviðeigandi, ónærgætið, fáránlegt. Hugur minn er hjá bresku þjóðinni, fórnarlömbum árásanna og fjölskyldum þeirra. Við erum minnt á það hvað við erum heppin hér heima á Íslandi að búa við eins sterka öryggistilfinningu og við gerum. Við erum heppin að búa í einu friðsælasta ríki heims við hvað mestan jöfnuð allra ríkja í heiminum, auk þess að við fáum fregnir af því að við búum við annað besta heilbrigðiskerfi í heiminum. Þvílík forréttindi.

Það er sannarlega gleðiefni og hvatning til þess að gera enn betur. Við eigum að vera leiðandi. Ísland á að vera leiðandi í heiminum þegar kemur að velferð, heilbrigði, jafnrétti, mannréttindum og menntamálum, og auðvitað með frjálslyndi að leiðarljósi. Við eigum að halda áfram á þeirri framfarabraut sem við erum á. Hinn vestræni heimur þarf á því að halda að vestrænar, frjálslyndar þjóðir sýni og sanni velgengni sína sem slíkar, sem frjálslyndar, sýni og sanni að frjálslynd viðhorf eru framfaraviðhorf, að frjálslynd viðhorf skapa forsendur fyrir jöfnuði, að frjálslynd viðhorf byggja undir velferð, stuðla að jafnrétti, virðingu fyrir mannréttindum og auki hamingju landsmanna.

Við stjórnmálamenn eigum að tala fyrir nauðsynlegum framförum og eigum að hafa hugrekki til að breyta til, taka stökkið fram á við og þannig eigum við líka að hugsa lausnirnar í baráttunni við krónuvandann sem núna herjar á okkur. Við eigum að vera tilbúin að fara nýjar leiðir til að takast á við þann vanda og ég tel því að það sé gríðarlega mikilvægt að við fáum í hendur góðar tillögur frá þeirri nefnd sem núna er að vinna tillögur að því hvernig við getum tekist á við hann.