146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:35]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég heyri ekki betur en að við hv. þm. Eygló Harðardóttir séum sammála um mikilvægi þessa málaflokks. Ég bendi á að fyrr í vetur sendi fjárlaganefnd hæstv. dómsmálaráðherra erindi þess efnis að hvetja hana til að fara ofan í þessi mál. Ég er hins vegar á þeirri skoðun, og tek undir með þingmanni, að hér gæti einfaldlega verið um endalaust verkefni að ræða. Ég tel að það sé mjög mikilvægt, ég tek undir það, að þessi stefnumótun eigi sér stað. Ég tel hana ekki vera á sviði fjárlaganefndar. Ég tel hana eiga að vera þverpólitíska nálgun að þessu leyti. Þetta er einfaldlega ein af birtingarmyndum þess hvernig þjóð við erum. Mikilvægið er ótvírætt. Ég er algerlega klár á því að þó að hv. þingmaður sakni þess að sjá nánari útfærslu í þessari fjármálaáætlun þá er verið að vinna málið og menn eru sammála um mikilvægi þess.