146. löggjafarþing — 69. fundur,  23. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[21:10]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Við erum sammála. Það er gleðilegt að við sjáum þessa galla bæði tvö.

Í síðara andsvari mínu beini ég sjónum að sérhverri tölulínu, eins konar töfralínu með fimm tölum í lok hvers kafla ríkisfjármálaáætlunar. Þar sjáum við viðbætur eða niðurskurð ár hvert í fimm ár. Þar getur að líta t.d. 100 millj. kr. hækkun milli ára í tiltekinn málaflokk og svo 200 milljóna breytingartölu næsta árið. Ég spyr sjálfan mig hvernig þær tölur eru almennt búnar til. Hver er bakgrunnur breytinga milli ára? Er hann leyndarmál? Með útskýringu á tölubreytingunum mætti auka á gegnsæið og fá fram mat á ríkisfjármálaáætlun sem við erum í raun og veru varla í stakk búin til þess að geta gert vegna skorts á upplýsingum. Er hv. þingmaður líka sammála mér hér?