146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:08]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, þetta er bara ágæt spurning. Við Vinstri græn teljum að núverandi stjórnvöld, síðasta ríkisstjórn, hafi hleypt út úr hagkerfinu 50–60 milljörðum, varlega áætlað, (ÓBK: Út úr hagkerfinu?) já, út úr efnahagskerfinu ætlaði ég nú að segja frekar, með því að taka niður skatta sem voru áður og veikja tekjustofnana. Þetta hefur legið fyrir og að það megi alveg reikna þetta upp í 50–60 milljarða á síðasta kjörtímabili. Nú halda menn áfram á þessari vegferð. Við erum að tala um að byggja áfram á þrepaskiptu skattkerfi, tölum um auðlegðarskatt, auðlindagjöld, fjármagnstekjuskatt, kolefnisgjald, einhvers lags gjöld á ferðaþjónustu, hvort sem það eru komugjöld eða hvað, bætta skattheimtu yfirleitt, talað er um að það séu úti (Forseti hringir.) um 80 milljarðar. Sykurskatt má nefna. Þetta eru allt skattar sem ekkert er óeðlilegt við að deilist niður á fólk og fyrirtæki í landinu eftir efnum og aðstæðum.