146. löggjafarþing — 71. fundur,  24. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[20:11]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta var svolítið fróðlegt svar. Er Sjálfstæðisflokkurinn og hans fylgdarsveinar sem sagt að boða skattahækkanir? (ÓBK: Nei, þetta er eftir fjármálaáætlun.) Er verið að boða skattahækkanir í fjármálaáætlun upp á 200 milljarða? Er verið að gera það af þessari ríkisstjórn? Ef skattar aukast um 200 milljarða í lok þessarar fjármálaáætlunar, hvaðan koma þeir skattar? (ÓBK: Þú verður að lesa það.) Mér þætti fróðlegt að vita það og heyra frá hv. þm. Óla Birni Kárasyni að hann sé að boða skattahækkanir á landsmenn um 200 milljarða. (ÓBK: Þú sérð það sundurgreint.) Þetta sagði hv. þingmaður hérna. Það er bara ekkert flóknara en það. En við erum að tala um að ná aftur þeim sköttum sem þessi ríkisstjórn og sú síðasta hafa sleppt út, sem var virkilega þörf á til þess að byggja upp innviðina. Út af hverju, ef menn telja sig vera með nægar tekjur, er þá þessi fjármálaáætlun (Forseti hringir.) bara handónýtt plagg og óburðugt og boðar ekki neinar framfarir í þessu samfélagi?