146. löggjafarþing — 72. fundur,  26. maí 2017.

fjármálaáætlun 2018--2022.

402. mál
[17:23]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þá kemur að öðru atriði sem mig langar að spyrja hv. þingmann um. Hann ræddi líka skortinn á greiningum í kringum þá tillögu að færa ferðaþjónustu úr neðra þrepi virðisaukaskattskerfisins yfir í efra þrep. Okkur er kunnugt um það hér að sú tillaga kom mörgum á óvart sem starfa innan ferðaþjónustunnar af því að flokkarnir höfðu hver og einn verið þráspurðir um það fyrir kosningar og í raun og veru bara einn flokkur á Alþingi sem hafði það beinlínis á stefnuskrá sinni, sem var Samfylkingin. Ég man nú ekki betur en a.m.k. tveir af þremur stjórnarflokkum hafi algjörlega þvertekið fyrir að það stæði til fyrir kosningar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í hans sýn á þetta. Ég veit að flokkur hv. þingmanns hefur lagt áherslu á að eiga mikið samráð og það sé lykilatriði. En hafa Píratar mótað sér stefnu um það hvernig eðlilegast væri að skattleggja ferðaþjónustuna? Telja Píratar rétt að hún fari upp í efra þrep virðisaukaskatts? Hafa Píratar áhyggjur af þeirri samkeppnisstöðu íslenskrar ferðaþjónustu miðað við ferðaþjónustu í nágrannalöndum þar sem þetta er iðulega í lægri þrepum, nema í Danmörku sem hefur verið nefnd hér af talsmönnum meiri hlutans? Ef ekki, hvað annað sjá þá Píratar fyrir sér, til að mynda þegar kemur að komugjöldum og öðru slíku?

Þessi atvinnugrein er okkar stærsta útflutningsatvinnugrein, en hún er auðvitað háð öðrum lögmálum en okkar hefðbundnu útflutningsatvinnugreinar þar sem fyrst og fremst er um að ræða sölu á þjónustu hér á landi, sem hefur auðvitað haft róttækt áhrif á þjónustujöfnuðinn. En hver er sýn hv. þingmanns og hans hreyfingar á þessi mál?