146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

framkvæmdaáætlun á sviði barnaverndar.

378. mál
[17:26]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir svör hv. þingmanns. Barnaverndarstofa starfar fyrst og fremst á faglegum forsendum. Það eru breyttar áherslur að mörgu leyti í barnavernd. Nú tíðkast fyrst og fremst að veita börnum stuðning í fjölskylduumhverfinu og styrkja fjölskylduna til að takast á við vandann, alla fjölskylduna. En aðstæður eru mjög mismunandi og tilvik þess að fjölskyldurnar eru ekki mjög sterkar og börnin eiga ekki að mjög miklu að hverfa, því miður. Þess vegna er nauðsynlegt að geta náð börnum á réttan stað, í heppilegt uppeldisumhverfi, til þess að ná þeim á réttan rekspöl.

Háholt mun að óbreyttu loka 1. júlí. Ég get ekki tekið neina afstöðu til þess hvort vísað hafi verið í litlum eða takmörkuðum mæli til þessa úrræðis en maður hefur heyrt af því einhverjar sögusagnir. Þessi mál eru til umfjöllunar í velferðarnefnd og ég tel ástæðu til að nefndin fari mjög gaumgæfilega ofan í það hvort svo sé og hvernig staðan er í þessu meðferðarumhverfi, hvort börnum sé tryggt gott atlæti þann tíma sem í hönd fer. En um leið og Barnaverndarstofa tekur þessar mikilvægu ákvarðanir faglega þurfum við að hugsa um hin fjárhagslegu málefni. Þau eru hluti af þessu öllu. En velferð barnanna má ekki falla í skuggann.