146. löggjafarþing — 76. fundur,  31. maí 2017.

sala á Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

[11:04]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Frú forseti. Fyrst er því til að svara að það hefur enginn sett sig í samband við fjármálaráðuneytið með ósk um það að kaupa flugstöðina eða hluti tengda henni. Í öðru lagi er spurt um almenna afstöðu mína til slíkra mála. Vegna þess að þetta hefur verið í umræðunni hjá hæstv. samgönguráðherra og reyndar nefndinni, meiri hluta hv. fjárlaganefndar, hef ég reynt að kynna mér það mál, hvernig eignarhaldi hefur verið hagað á flugstöðvum erlendis. Ég get ekki sagt að ég sé sérfræðingur í því, en mér sýnist að það sé oft með þeim hætti að fleiri en einn aðili eigi þær og þá eigi ríkið yfirleitt stóran hlut, t.d. 30, 40%, eða sveitarfélögin. Aðrir aðilar gætu t.d. verið sjóðir, lífeyrissjóðir og einhver slík eignarhaldsfélög.

Ég hef ekki mótað mér afstöðu í þessu máli. Ég hef hins vegar hlustað af áhuga á það að aðilar hafa nefnt tölur um hugsanlegt verðmæti félagsins Isavia sem gæti verið á bilinu 100–200 milljarðar, sem er augljóslega mjög breitt bil sem sýnir að vangaveltur af þessu tagi eru ekki langt komnar. Ég hef látið hafa það eftir mér að það sé gott fyrir ríkið að vita af þessum varasjóði ef einhvern tímann kæmi til þess að menn þyrftu að huga að því, en það hefur ekki verið skoðað á þessu stigi málsins af fjármálaráðuneytinu.