146. löggjafarþing — 79. fundur,  1. júní 2017.

tillögur dómsmálaráðherra um skipun dómara við Landsrétt.

622. mál
[13:45]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ástæðan fyrir því að það er einhver tafla og ákveðið vægi þar sem hæfni er metin o.s.frv., kemur fram í umsögn dómnefndar. Þar er talað um sjálfstæði, skilvirkni og hlutverk dómara, að ákvarðanir og skipun í starf dómara eigi að vera byggðar á hlutlægum sjónarmiðum og á verðleikum og hæfi. Hlutlægum sjónarmiðum. Hlutlæg sjónarmið þýðir nákvæmlega þetta.

Ef við förum svo yfir þau hlutlægu sjónarmið sem nefndin horfir til, og metur þá vægi á hlutlægan hátt, sem er bara mjög eðlilegt að gera — hv. þingmaður kom niður í þingflokksherbergi okkar Pírata í gær og talaði um það sem hann nefnir hér. Ég sagði: Já, endilega, förum yfir það. Ég nefndi það meira að segja við hann því að ég mundi ákveðnar tölur sem hefðu komið fram. Við fórum yfir það í nefndinni. Hv. þingmaður var í nefndinni. Hann spurði ráðherra: Já, en heyrðu, ef þú tekur þennan hérna út frá dómarahæfi, hvers vegna tekurðu þá þennan í 7. sæti út, í staðinn fyrir þann sem er í 12. sæti? Og svo aðra sem eru neðar og eru konur? Færslan og ráðherra (Forseti hringir.) — Jæja, það er vegna þess að ég tek inn lögfræðimat. Það stóðst ekki heldur. Tölurnar standast ekki. Hv. þingmaður var í nefndinni þegar við fórum yfir þetta. Við getum alveg skoðað tölurnar. Þetta mun allt koma fram í dómsmáli og nú er þingmaður hérna uppi í pontu að segja alþjóð eitthvað sem er rangt. Það kemur allt í ljós. Þingmaður ætti kannski að skoða þetta mjög grannt áður en hann fullyrðir eitthvað hér í pontu.