147. löggjafarþing — 2. fundur,  13. sept. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:02]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Frú forseti. Kæru Íslendingar. Þingmennskan er þjónustuhlutverk. Við erum kjörin af þjóðinni til að þjóna henni sem fulltrúar á Alþingi. Þingmenn ættu því með réttu að kallast löggjafarþjónar og í stað ráðherra mætti kalla þessa þjóna almennings ráðgjafa þjóðarinnar.

Þessa speki mátti heyra í orðum Guðmundar Andra Thorssonar í hugvekju Siðmenntar þegar þingsetning fór fram í gær. Orð Guðmundar Andra festust í huga mér því að auðvitað er margt til í þessu hjá honum þótt mér þyki leitt að vitna um hversu fjarri þetta viðhorf virðist vera í huga núverandi ríkisstjórnar.

Stefnuræða hæstv. forsætisráðherra er gott dæmi um viðhorf hans gagnvart sinni stöðu í samfélaginu. Þar kveður við kunnuglegan tón. Hæstv. forsætisráðherra finnst hann afskaplega óheppinn með þjóð. Hér er allt í glimrandi góðæri og gleði en þrátt fyrir það upplifir almenningur sig í óréttlátu samfélagi og sér ekki veisluna sem hann ber á borð. Við þekkjum þetta tal enda orðið gamalkunnugt stef í málflutningi Sjálfstæðisflokksins, ekki síst hjá hv. forsætisráðherra sem síendurtekið tyggur sömu tugguna um að það hljóti einhverjir andlegir veikleikar að hrjá þá sem ekki sjá hvað allt er frábært og sanngjarnt og réttlátt og æðislegt í því samfélagi sem við búum í.

Skemmst er að minnast orða ráðherrans í Kryddsíldarþætti Stöðvar 2 þess efnis að það þyrfti, með leyfi forseta, „náttúrulega einhverja geðveiki til að sjá ekki hvað þetta er frábært land sem við búum á“. Hann lét ekki þar við sitja heldur sagðist hann vorkenna fólki sem liði svona.

Sömu skilaboð í nýjum búningi mátti heyra í síðustu stefnuræðu ráðherrans þar sem hann hélt því fram að sterkar vísbendingar væru um að niðurskurður eftir hrun hefði kallað fram hughrif hjá stórum hluta þjóðarinnar um að samfélagssáttmáli um tryggt aðgengi að heilbrigðisþjónustu hefði brostið. Með leyfi forseta sagði ráðherrann:

„Aukin útgjöld til heilbrigðismála á síðustu árum hafa ekki náð að lækna þessi hughrif.“

Að mati hæstv. forsætisráðherra er það sem sagt helber ímyndun hjá almenningi að heilbrigðiskerfið sé að niðurlotum komið, að greiðsluþátttaka sjúklinga hafi hækkað fram úr hófi og að Landspítalinn geti ekki sinnt hlutverki sínu sem skyldi vegna gengdarlauss niðurskurðar og sveltistefnu.

Að mati forsætisráðherra þarf að lækna þessa þjóð sem finnst ekki nóg að gert og leggur nöfn sín í tugþúsundatali við áskorun um endurreisn heilbrigðiskerfisins — lækna hana, ekki af raunverulegum sjúkdómum, því að það kostar peninga, heldur af ímyndunarveiki, vanþakklæti og, jú, einhverri alveg sérstakri tegund af geðveiki sem hann einn sér.

Þarf þessi þjóð ekki bara endurmenntun? spyr hæstv. forsætisráðherra sem hljómar helst eins og önugt foreldrið í Guttavísunum sem er orðið langþreytt á barni sem engu hlýðir: Almáttugur, en sú mæða að eiga svona þjóð.

Góðir landsmenn. Í kvöld er það launafólk sem misskilur stöðu sína að mati forsætisráðherra. Hann vísar í skýrslu frá ASÍ sem tíundar að skattbyrði launafólks hafi aukist umtalsvert síðustu 30 árin, mest hjá hinum tekjulægstu. Ráðherra þykir lítið til ítarlegrar skýrslu stærstu samtaka launafólks á landinu koma þar sem hann viðurkennir svo gott sem í framhjáhlaupi að ASÍ hafi rétt fyrir sér hvað skattbyrðina varðar en það séu hreinlega að ímynda sér að ráðstöfunartekjur þeirra verst settu hafi lækkað. Raunin er þó sú að þó að launafólki hafi tekist með sinni baráttu að hækka lægstu launin umfram önnur laun á umræddu tímabili hefur ríkisstjórnin, sem á þessu tímabili hefur nánast alltaf verið með Sjálfstæðisflokkinn innan borðs, tekið af þeim kjarabótina jafnharðan með því að hækka skattbyrði á þessa hópa umtalsvert á móti. Þetta veit hæstv. forsætisráðherra fullvel.

Athugum samt að þetta framhjáhlaup hæstv. forsætisráðherra er stórmerkilegt fyrir þær sakir að hann staðfestir hér í heyranda hljóði að helsta áherslumál Sjálfstæðisflokksins í áratugi, lægri skattar, er ekki ætlað þeim sem verst hafa það, heldur einungis hinum betur settu. Það er svo sem gott að fá það staðfest, sem margir hafa löngum vitað, að Sjálfstæðisflokkurinn vinnur markvisst að því að bæta hag hinna efnameiri á kostnað hinna efnaminni. Verra er að fylgjast með forsætisráðherra og flokki hans halda áfram sínum blekkingaleik gagnvart þjóðinni og saka þá um geðveiki sem ekki trúa möntru þeirra um að allir landsmenn sitji við sama gnægtaborðið í hagvaxtarveislunni þeirra.

Þessi gamalgróna taktík Sjálfstæðisflokksins er vel þekkt og þaulreynd aðferð yfirgangsseggja í valdastöðu, í raun andlegt ofbeldi sem felst í því að gefa þolandanum viðstöðulaust rangar upplýsingar með það að markmiði að fá hann til að efast um eigið minni, skynjun og skynsemi, efast um eigin geðheilsu. Og þessi aðferðafræði var furðu fljót að smitast yfir á samstarfsflokka Sjálfstæðisflokksins í ríkisstjórn sem virðist sjá það sem eitt af sínum mikilvægustu verkum að sannfæra þjóðina um að hún skilji ekki neitt og sé voðalega ósanngjörn.

Það er ekki verið að einkavæða heilbrigðiskerfið, segir hæstv. heilbrigðisráðherra á meðan hann klippir á borða í Klíníkinni og mokar fé í einkageirann í fjárlögum þessa árs.

Erfiðara finnst mér að segja til um viðhorf stjórnarliða í heild til þessarar aðferðafræði kúgarans, hvort þeir láti blekkjast af síendurteknu og vísvitandi rangfærslunum eða taki virkan þátt í að halda þeim á lofti. Þó má segja að viðstöðulaust áreiti hv. þm. Brynjars Níelssonar gagnvart brotaþolum Róberts Árna Hreiðarssonar um að það hafi ekkert verið brotið svo illa á þeim sé ágætt dæmi um þessa ógeðfelldu taktík. Stjórnarliðar hafa heldur ekki látið í sér heyra í kjölfar þess að í ljós kom að ráðherra sagði fjölmiðla og sömu brotaþola alls ekki eiga rétt á upplýsingum um málsmeðferð í uppreist æru. Það er fullyrðing sem stóðst enga skoðun eins og nú hefur komið á daginn.

Stjórnarliðum finnst líka allt í lagi að dómsmálaráðherra hreyti því í almenning að ákall hans um mannúðlega meðferð tveggja ungra stúlkna á flótta sé bara eitthvert mál sem dúkki upp í umræðunni fyrir tilviljun og henni detti ekki í hug að gera neitt í.

Frú forseti. Það er þessi ríkisstjórn sem þarf á endurmenntun að halda. Hún mætti raunar fara að góðu fordæmi forseta Alþingis sem ætlar sér að hlusta á viðhorf almennings gagnvart Alþingi og hlutverki þess. Það er að taka hlutverk sitt sem löggjafarþjónn alvarlega.

Þessi ríkisstjórn mætti líka fara að ráðum forseta lýðveldisins og færa fólkinu í landinu þá nýju stjórnarskrá sem hún óskaði eftir. Hún þarf líka að læra að segja satt og segja það strax, það á ekki að þurfa að draga sjálfsagðar og opinberar upplýsingar út úr henni með töngum. En fyrst og fremst mætti ríkisstjórnin hlusta, hlusta á þjóðina sem hún á að þjóna.