147. löggjafarþing — 3. fundur,  14. sept. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[11:28]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir spurninguna. Ég tel einmitt að við þurfum að skoða byggðaáhrif skattsins, eins og ég kom inn á áðan. Það að byggja hraðhleðslustöðvar úti um allt dugar ekki til. Við megum heldur ekki gleyma því að það gerist ekki þannig að við skiptum út bílaflotanum sisvona og við gerum það heldur ekki til sveita. Þar er mikið af tækjum og tólum sem við skiptum ekkert út bara sisvona. Þetta tekur allt tíma og þess vegna þarf að gera áætlanir. Þess vegna kalla ég eftir aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í þessum málum.

Ég hef í sjálfu sér ekki lagt niður fyrir mér hvaða mótvægisaðgerðir væru bestar, enda er það væntanlega annarra en mín að koma fram með tillögur um það til þess að ná utan um það í fjárhæðum talið hvernig þetta kemur við tilteknar byggðir o.s.frv. Eigum við að gera þetta í einni og sömu aðgerðinni? Hentar eitt öllum og allt það? Það er eitthvað sem ég get ekki sagt hér og nú, ég játa það alveg, en ég sé í hendi mér að þetta myndi koma mjög illa við víða. Við landsbyggðarfólk sækjum þjónustu mjög víða, mikið hingað suður til Reykjavíkur. Við þurfum að fara um langan veg sem oft er ekki góður og þess vegna held ég að það þyrfti að koma eitthvað til. Ráðherrann verður að finna út úr því hvernig það gæti verið best og til þess hefur hann væntanlega gott fólk sér til hliðar að reyna að finna út úr því. Það er líka hægt að kalla til sveitarfélögin, það er hægt að kalla til samstarfshópana, þ.e. landshlutasamtök sveitarfélaga, og spyrja: Hvað mynduð þið telja að mætti þessu? Það eru auðvitað þau sem fást við þetta dags daglega úti á akrinum þannig að ég held að það væri vænlegra en að einhver einn alþingismaður fari að nefna tiltekin dæmi.