147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[15:06]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka kærlega fyrir svarið. Mig langar þá aðeins að spyrja í kjölfarið, af því að hv. þingmaður nefndi bráðabirgðaákvæði. Það var einmitt það sem ég hugsaði fyrst þegar ég sá þessa tillögu að hugsanlega mundi fara betur á því að setja annaðhvort einhvers konar þvingunarúrræði gagnvart framkvæmdarvaldinu um að koma með tillögur til þess að gera breytingar sem myndu sannarlega gefa mönnum færi á að öðlast borgaraleg réttindi, kjörgengi að nýju, eða einfaldlega að búa þannig um hnútana að þetta tiltekna ákvæði, 81. gr., yrði ekki virkt í ákveðinn tíma. Þannig kæmi ákveðin pressa á þingið að bregðast við því, í stað þess að taka í burtu ákveðinn glugga án þess að gefa þó skýr loforð um hvað kæmi í staðinn.

Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvort hún sé engu að síður ánægð og sátt við þessa niðurstöðu eins og hún liggur fyrir, eða hvort hún hefði kosið hina og af hverju hún telji að það hafi ekki orðið niðurstaðan. Ef hv. þingmaður mundi fara í þá vinnu að leggja til einhvers konar tímafrest, hve langur tímafrestur telur hún að sé eðlilegur? Höfum það í huga að sá tímafrestur er sá tími þar sem íslenskir borgarar, sem afplána dóma lengur en eitt ár, hafa ekki möguleika á að bjóða sig fram til Alþingis.