147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

útlendingar.

113. mál
[17:59]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pawel Bartoszek fyrir ræðuna og tek undir að það er mikilvægt að við vinnum þetta vel. Þetta er ekki verkefni sem við munum klára með þessu frumvarpi. Það verður væntanlega eitt af stóru verkefnum nýs þings eða nýrra þingmanna á nýju kjörtímabili.

Ég hefði hins vegar áhuga á því að heyra um hugmynd sem hv. þingmaður lýsti og væntingar hans um frekari breytingar sem snúa að útlendingalöggjöfinni og líka það sem nýr að atvinnuleyfum. Ég hef ekki í hyggju að bjóða mig fram aftur til þings en ég veit að hv. þingmaður hefur áhuga á að gera það og vonandi gengur honum sem allra besta að ná kjöri aftur. Ég hefði áhuga á að spyrja um lista þingmannsins varðandi breytingar á útlendingalöggjöfinni, því að ég gat tekið undir allt sem hann nefndi í upptalningu sinni. Myndi það að tryggja að við gætum tekið upp sambærilegt fyrirkomulag og þekkist í Kanada þannig að einstaklingar eða frjáls félagasamtök gætu tekið að sér að kosta og bera ábyrgð á móttöku flóttamanna? Þar held ég að viðmiðið séu um tíu aðilar. Það var mjög áhugaverð umfjöllun í New York Times um reynsluna af því fyrirkomulagi í Kanada sem haft er samhliða annarri móttöku þar. Það hefur gefist mjög vel að hafa þá leið mögulega. Gæti þetta verið eitt af því sem við myndum skoða til þess að við gætum haldið áfram að hjálpa flóttamönnum?