148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[12:52]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langaði til þess að spyrja núverandi hv. formann fjárlaganefndar um vinnu fjárlaganefndar á þeim stutta tíma sem eftir er fram að ætlaðri samþykkt frumvarpsins. Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að við nefndarmenn getum náð þeim upplýsingum og því samhengi sem við þurfum á að halda á þessum stutta tíma til að vita hvaða ákvörðun við eigum að taka um fjárveitingu og verkefni tengd fjárlagafrumvarpinu. Við höfum lent í því þegar við setjum frumvörp í flýtimeðferð að við endum með rangt kostnaðarmat eða gerum mistök í tölum. Fyrr á þessu ári leiddi slík meðferð til mistaka upp á 2,5 milljarða á mánuði sem þurfti að leiðrétta afturvirkt og alls konar.

Mig langaði aðeins til að fræðast um hvernig við getum sem best á þessum stutta tíma komið í veg fyrir slík mistök, sérstaklega þar sem ég rek augun í það að á meðal þeirra frumvarpa sem klára á í desember er fjáraukafrumvarp 2017. Samkvæmt lögum um opinber fjármál eigum við ekki að gera fjáraukalög því að varasjóðirnir eiga að dekka það sem upp á vantar. Ég skil ekki alveg af hverju við eigum að fara í fjáraukaumræðu, sérstaklega ef verið er að fara í eitthvað núna sem leiðir til mistaka og endar í röngum upphæðum og svoleiðis af því að það hefur verið unnið í flýti — að við myndum ekki lenda í fjáraukavinnu aftur 2018.

Þessu tengt: Er búið að stofna til einhverra skuldbindandi fjárútláta sem leiða til þess að við þurfum að fara út í fjáraukalög í staðinn fyrir að geta bara nýtt varasjóðina?