148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[13:03]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur hennar risastóru spurningar. Fyrst vil ég segja, varðandi aðhaldsstig opinberra fjármála og ríkisfjármála sem birtist í þessu frumvarpi, að það er leitast við að halda áfram jafnvægi og efnahagslegum stöðugleika. Það er verið að skila jákvæðri afkomu og stefnt að því að greiða áfram niður skuldir og vexti.

Varðandi auðlindagjöldin vil ég fyrst segja að það er löngu tímabært að koma því fyrir í stjórnarskrá. Byrjum á því og svo held ég að það verði að vera þverpólitísk sátt um það og samráð við þær atvinnugreinar sem við erum að tala um, hvort sem það er sjávarútvegurinn eins og í þessu tilviki eða ferðaþjónustan eða aðrar greinar. Alls staðar þar sem um er að ræða auðlindir og gjaldtöku þarf samráðið, bæði á hinum pólitíska vettvangi og við atvinnugreinarnar, að vera meira og markvissara kannski en verið hefur. Þetta hefur veginn alltaf endað í einhverjum hnút hér á hinu háa Alþingi.

Kolefnishækkunin — það er lægra gjald en til stóð. En það hangir vel saman við loftslagsmál og þau markmið sem sett hafa verið í því samhengi um að lækka þessa kolefnismælikvarða. Ég held að það sé bara mjög jákvætt. Ég kem síðan í seinna andsvari að samgöngumálum í Suðvesturkjördæmi.