148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[15:57]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson bað um það hér áðan að þeir ráðherrar sem hann hygðist eiga orðastað við yrðu í salnum og náði einhverjum þeirra hingað inn. Hér er hvorugur þeirra ráðherra sem ég hafði hugsað mér að ræða við, hvorki hæstv. fjármálaráðherra né hæstv. heilbrigðisráðherra. Heilbrigðisráðherra stóð reyndar við kökuborðið sem sá sem hér stendur stóð við á sínum tíma [Hlátrasköll í þingsal.] þegar hans var saknað úr þessum sal. (Gripið fram í: Er það peruterta?) Nú er það kókosterta, ef ég sá rétt. Ég spyr því hæstv. forseta hvort hann geti eins og hér áðan gert tilraun til þess að kalla þessa ráðherra í salinn.

(Forseti (ÞorS): Forseti hefur upplýsingar um að allir eða flestir ráðherrar séu hér í húsi þannig að þeir ættu nú að heyra til.)

Já, en virðulegur forseti, nú bið ég um það sama og hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson bað um hér áðan, að ég fái að gera hlé á máli mínu á meðan ég bíð eftir ráðherrunum.

(Forseti (ÞorS): Nú er leitast við að sækja ráðherra hingað til leiks þannig að ég hef ákveðið að verða við þessum tilmælum hv. þingmanns. — Forseti vill láta þess getið að von er á fjármálaráðherra í salinn eftir örfáar mínútur. Hér er hæstv. heilbrigðisráðherra mættur. [Hlátur og samræður í þingsal.] — Við hinkrum bara örstutta stund. — Forseti þakkar hv. þingmönnum og hæstv. ráðherrum þolinmæðina.)

Virðulegur forseti. Það er nú ekki mikið eftir af tímanum. Getum við gert eitthvað í því svo að ég nái að bera fram …

(Forseti (ÞorS): Forseti hefur tekið tillit til þess hvar þingmaðurinn var staddur í ræðu sinni þegar hann gerði hlé á sínu máli.)

Ég er ekki alveg viss um að það sé rétt hjá herra forseta. Ég þakka ráðherrunum fyrir að láta sjá sig hér í þingsal því að ég hugðist ræða mjög mikilvæg mál við þá.

Í fyrsta lagi liggur — nei, nú er eitthvað mikið að gerast með klukkuna, nú er þetta komið í lag, forseti. Þakka þér fyrir.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að efnahagsstaðan á Íslandi er gjörbreytt frá því sem var fyrir ekki svo löngu. Það liggur líka alveg ljóst fyrir hvernig það gerðist. Það gerðist með mjög stórum aðgerðum, aðgerðum sem voru umdeildar á sínum tíma, en var ráðist í engu að síður, og skiluðu þeim árangri að skuldastaða ríkissjóðs er allt önnur en hún var og þar af leiðandi möguleikar ríkisins til að takast á við hin ýmsu verkefni, ráðast í innviðauppbyggingu og slíkt. Ég tala nú ekki um þar sem við sjáum hversu miklu betri kjara ríkið nýtur en áður, getur tekið evrulán á 0,5% vöxtum. Gjörbreytt staða. Það veldur manni þess vegna áhyggjum, herra forseti, að ríkisstjórnin skuli fyrst og fremst ætla að nota þessa stöðu til þess að auka útgjöld án þess að sýna fyrirhyggjusemi í því hvernig þessi auknu útgjöld nýtast, þ.e. án þess að passa upp á að þau séu vel nýtt.

Á sama tíma er ríkisstjórnin í raun að gefa eftir stóran hluta af þessum árangri. Augljósasta dæmið sem blasir við nú er eftirgjöfin á Arion banka, alveg ótrúleg staðreynd, herra forseti. Nú á að láta Arion banka frá sér á sama tíma og menn ætla að nýta þetta svokallaða umfram eigið fé í Landsbankanum og í Íslandsbanka.

Því spyr ég þessa ráðherra, hæstv. forseti: Hverju sætir þetta? Hvernig stendur á því að ríkisstjórnin ætlar að taka þessa U-beygju að því er virðist eða a.m.k. sýna þá værukærð sem birtist í því að láta frá sér þá stöðu sem ríkið hafði gagnvart Arion banka eins og öðrum bönkum? Og hvernig stendur á því að ráðast á í þessar miklu fjárfestingar eða þessi miklu útgjöld án þess að skoða um leið hvernig megi laga þau kerfi sem útgjöldin renna til?

Eitt af skýrustu dæmunum, og þess vegna bað ég um að hæstv. heilbrigðisráðherra yrði hér, er heilbrigðiskerfið. Þar sem landlæknir hefur margítrekað að það sé gríðarlega mikilvægt að samhliða auknum fjárveitingum í kerfið verði ráðist í endurskoðun kerfisins þannig að fjármagnið nýtist betur. Landlæknir sagði meira að segja að það væri beinlínis hættulegt — það væri beinlínis hættulegt — að auka framlög til heilbrigðismála án þess að ráðast á sama tíma í kerfisbreytingar, umbætur á kerfinu. Það er skiljanleg afstaða vegna þess að ef menn setja verulega peninga í þetta núna, sem nýtast ekki nógu vel, þá verður enn dýrara og enn erfiðara að laga kerfið þegar þar að kemur. Hér sáum við bara meira af því sama, meira af samþjöppunarstefnunni í heilbrigðismálum, öllu þjappað á Landspítalann, peningunum eytt þar, á meðan stofnanir annars staðar eins og á Norðurlandi, eins og við sjáum í dag, eru sveltar; eru beinlínis látnar skera niður frá því sem áður var, en fjármagninu beint í rekstur á Landspítalanum, sem vegna gallanna í kerfinu, vegna gallanna í því hvernig þessu hefur verið stillt upp, er of dýr í rekstri því að hann nýtist ekki sem skyldi. Það er verið að beina allt of miklu álagi að Landspítalanum. Það gerir hann óhagkvæmari í rekstri. Það gerir stöðu heilbrigðisþjónustunnar annars staðar á landinu um leið veikari. Svo náttúrlega blasir það við, herra forseti, hversu mikil sóun er í því fólgin að ætla að klára mistökin risastóru við Hringbraut.

Kemur það ekki til greina, að mati hæstv. heilbrigðisráðherra, að taka a.m.k. örlítinn tíma, fáeinar vikur, í að skoða það hvort ekki hafi eitthvað breyst frá því síðast var tekin ákvörðun um að byggja við Hringbraut? Það hefur nefnilega alveg ótrúlega margt breyst. Allar grunnforsendur ákvörðunar eru raunar breyttar, hvort sem það eru samgöngumálin í Reykjavík, fasteignamarkaðurinn, þarfir heilbrigðisþjónustunnar, þróun borgarinnar, þetta er allt gjörbreytt. Og svo sú augljósa staðreynd, sem ætti nú að blasa við öllum, hversu óhagkvæmt það er að byggja enn við þessa þyrpingu af hálfónýtum húsum.