148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:06]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Nú er reyndar ekki mikill tími til að ræða neitt sérstaklega mikið en mig langar til að fjalla aðeins um fjármagnstekjuskatt og þær hugmyndir sem birtast bæði í fjárlagafrumvarpinu sjálfu sem og umræðu sem hefur annars staðar átt sér stað um það að mynda annan skattstofn á fjármagnstekjuskatti.

Ég hef ekki myndað mér endanlega skoðun á því öllu saman og hef ræðu mína með þeim fyrirvara að ég ræði þetta aðallega með hliðsjón af því að ef við ætlum að gera breytingu núna sem felur í sér hækkun á fjármagnstekjuskatti úr 20% upp í 22% þurfum við að átta okkur á samhenginu við ákvarðanir sem gætu komið seinna um að breyta skattstofni fjármagnstekna.

Hafandi horft á Alþingi frekar en tekið þátt í starfinu í um það bil ár veit ég að stundum eru áhorfendur ekki alveg með á nótunum í samtalinu sem á sér stað hérna á hlaupum þannig að ég velti fyrir mér hvernig ég komi þessu frá mér þannig að skýrt sé. En sem sé, skattur af fjármagnstekjum er 20% í dag og það er lagt til að hann verði hækkaður í 22%. Skattstofn fjármagnstekna, þ.e. sú upphæð sem er skattlögð, er sú ávöxtun sem verður á bankainnstæðu eða einhverju því um líku. Þegar nafnvextir slíkra innstæðna eru skattstofn fjármagnstekna þýðir það í núgildandi kerfi að verðbæturnar á verðtryggðum innstæðum, til að mynda sparnaður eða eitthvað því um líkt, þ.e. eftir því sem innstæðan hækkar í samræmi við vísitölu, þá er sú hækkun sem tengist verðbólgunni hluti af nafnvöxtunum. Sem þýðir að í raun og veru að verðbólgan, ef hægt er að orða þetta svolítið óvarlega, er skattlögð líka. Það má orða það þannig, kannski svolítið óvarlega. Hugmyndin um að fara að breyta þessu þannig að skattstofninn sé af raunávöxtun felur í sér að þessi verðbólguhluti af aukningu innstæðunnar er ekki lengur skattlagður heldur einungis sú ávöxtun sem er umfram verðbólguna.

Þetta er svolítið viðamikil breyting. Tvö prósentustig til eða frá í hækkun eða lækkun á fjármagnstekjuskatti er að mínu mati afskaplega lítið í samhengi við það. Í raun og veru er breytingin á skattstofninum með hliðsjón af því hversu sveiflukenndri verðbólgu við eigum að venjast á Íslandi alla jafna, þá er þessi breyting sem hér er boðuð afskaplega lítilvæg, finnst mér, við hliðina á kerfisbreytingunni sem er verið að stinga upp á á öðrum vettvangi, ekki í þessu frumvarpi, svo við höldum því til haga.

Ég hef svolítið velt því fyrir mér hvort mér þyki eðlilegt fyrirkomulag að skattstofninn sé þessir nafnvextir þar sem verðbólgan er líka skattlögð eða hvort hann ætti að vera raunvextir sem undanskilja hana. Ég er ekki alveg kominn að niðurstöðu eins og ég opnaði ræðu mína á að nefna. En það er eitt sem mér finnst óþægilegt við núgildandi fyrirkomulag. Ef fólk sparar peningana sína með því að leggja inn á verðtryggða reikninga, sem fólk getur gert ef það hefur efni á því á annað borð, og þar sem nafnvextir eru notaðir sem skattstofn getur raunávöxtun orðið neikvæð ef verðbólga hækkar skyndilega mikið. Eins og gerðist í hruninu. Það verður verðbólguskot, þá getur raunávöxtun innstæðna þess fólks sem er að spara peninga orðið neikvæð. Það þýðir ekki að upphæðin sjálf lækki en það þýðir að hún nær ekki takti við verðbólgu og minnkar því að raunvirði.

Það finnst mér kjánalegt og óþægilegt. En það svipar mjög til vandræðagangsins sem er afleiðing af því að við erum með mjög verðbólgusækið hagkerfi yfir höfuð. Þannig að það er hægt, aftur kannski svolítið óvarlega, að segja að þarna sé verið að setja ákveðna tegund af verðtryggingu. Það væri ónákvæmt hugtak. Ég myndi biðja um annað orð, það getur flækt málin ef maður notar röng orð. En það finnst mér varhugavert. Mig langar til að knýja fram aðeins meiri umræðu um það hvort það sé eðlilegt að þegar við ákveðum skattstofn fjármagnstekna þá tökum við einhverja verðtryggingarnálgun á skattstofninn. Mér finnst það líka óvenjulegt af sömu ástæðu og verðtryggingin sjálf er óvenjuleg. Ég er ekki á móti verðtryggingu. En mér finnst mikilvægt og get fært rök fyrir því hvers vegna mér finnst verðtrygging þurfa að vera valkostur, alls ekki skylda en valkostur, hjá lántakanda. En hérna erum við að tala um skatt sem á að gilda um alla. Þá vandast málið aðeins.

Ég hef ekki endanlega gert upp hug minn en mig langaði að nefna þetta og útskýra svo við fengjum aðeins meiri umræðu um þetta. Ég held að þetta sé stærra mál en fólk gerir sér grein fyrir.