148. löggjafarþing — 3. fundur,  15. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[17:24]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er svolítið upptekinn af þessu hugtaki „stórsókn“. Við sjáum það ef við berum þetta saman. Ég skammaði Vinstri græn, nú ætla ég aðeins að skamma Framsókn. Hvar er stórsókn í menntamálum? Þetta eru orð sem flokkarnir nota sjálfir. Er það í huga hæstv. ráðherra stórsókn þegar aukningin er 1–3%? Það virðist vera eins og staðan er í dag.

Lítum aðeins á framhaldsskólana. MR fær 3% aukningu, Menntaskólinn á Akureyri 3%, Menntaskólinn í Hamrahlíð 0,4%, FB 1,3%, gamli skóli ráðherrans, Flensborgarskóli fær rúmlega 2%. Háskólarnir fá um 4% aukningu. Þetta er engin stórsókn í skólamálum. Þess vegna vil ég fá skilgreiningu frá ráðherranum á því hvenær aukning á fjármunum er stórsókn og hvenær ekki.