148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

bankamál.

[13:40]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M):

Herra forseti. Hæstv. fjármálaráðherra og ríkisstjórnin hafa lýst áhuga á að nýta svokallað umfram eigið fé úr bönkunum til þess að ráðast í innviðauppbyggingu og greiða niður skuldir ríkissjóðs o.s.frv., þ.e. umfram eigið fé úr Landsbankanum og Íslandsbanka. En hvers vegna ekki Arion banka? Er það vegna þess að ríkisstjórnin er búin að gefast upp á að endurheimta yfirráð í þeim banka? Er hún búin að sætta sig við að snúið hafi verið á hana, og raunar síðustu ríkisstjórn líka, af vogunarsjóðum sem hafi þá tekist að selja sjálfum sér bankann á afslætti? Hver er stefna ríkisstjórnarinnar varðandi Arion banka? Hyggst hún ekki nýta þann forkaupsrétt sem sannarlega er til staðar vegna þess hvernig staðið var að málum? Telur hæstv. ráðherra enn gott fyrir íslenska fjármálakerfið, íslenska bankakerfið, að fá þar inn vogunarsjóði sem stærstu eigendur stærsta bankans? Telur hann það ekki ógna stöðugleika kerfisins? Telur hann að það hafi verið rétt ákvörðun hjá stjórnvöldum að heimila það? Er hann þess vegna ósammála því að rétt sé að nýta forkaupsréttinn?

Það er eitt, herra forseti, en svo er hitt, framhaldið. Því að það er ekki búið að selja bankann allan. Nú berast fregnir af því að áhugi sé á að skrá hlutabréf í Arion banka á hlutabréfamarkaði og að farið sé fram á að ríkið afsali sér forkaupsrétti á restinni til þess að það geti náð fram að ganga. Mun hæstv. fjármálaráðherra mæla með því að ríkið afsali sér forkaupsrétti af restinni af hlutabréfunum svo hægt verði að skrá bankann á markað? Mun hann gera það áður en út kemur boðuð hvítbók ríkisstjórnarinnar um fjármálakerfið?