148. löggjafarþing — 5. fundur,  19. des. 2017.

"Í skugga valdsins: #metoo".

[15:28]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. og málshefjanda Albertínu Friðbjörgu Elíasdóttur fyrir þetta góða frumkvæði að umræðu sem við þurfum öll að taka þátt í og hugsa um, ekki síst karlmenn. Við erum feður, afar, bræður, synir, frændur, vinir og samborgarar kvenna — en ekki herrar.

Að undanförnu höfum við lesið ótal frásagnir af flestum sviðum þjóðlífsins um kynbundið ofbeldi. Ofbeldi karla á hendur konum sem lýsir sér með alls kyns hætti en eitrar líf allra sem í kringum það eru. Birtingarmyndirnar eru með ýmsu móti en allar eiga þessar frásagnir það sammerkt að þar er einstaklingur í valdastöðu, karlkyns, sem ræðst að valdaminni einstaklingi, konu, með orðum eða athöfnum. Það er mikilvægt að muna að þessi framkoma er ekki regla heldur undantekning. Hún er afleiðing af forréttindastöðu sem dregur fram verri hliðar einstaklings. Og þegar við bætast menningarbundnar venjur getur orðið til eitruð blanda. Það er mikilvægt að karlar stigi fram, feður, bræður, afar, vinir, félagar kvenna, og segi skýrt að svona framkoma sé ekki í okkar nafni, ekki okkur þóknanleg, og sýni menningu sem geti líka orðið okkur körlum að áþján.

Með aukinni og opinni umræðu falla þessi yfirvörp sem við sjáum eitt af öðru og upp lýsast skúmaskotin og þar hrynja skálkaskjólin. Málið snýst um lagaumhverfi. Þar kemur til kasta okkar, hins háa Alþingis. En það snýst líka um menningu og siði og venjur. Þar kemur til kasta okkar sem erum feður, afar, bræður, synir, vinir, frændur og samborgarar kvenna.