148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

fjáraukalög 2017.

66. mál
[15:29]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ef við færum þá leið að segja að það sem tengist uppkaupum á skuldabréfaflokkunum væri tekið til hliðar þá værum við með u.þ.b. 16 milljarða fyrir framan okkur. Ef við myndum síðan segja að það væri ekkert óeðlilegt að draga frá það sem er óráðstafað í varasjóðnum, sem var einmitt hugsaður fyrir sambærileg mál og gætu komið inn í fjáraukalagafrumvarp, þá erum við komin mjög nálægt 10 milljörðum. Ef við horfum á þetta þannig að þar af séu 4 milljarðar í lyf og lækningavörur og 2 milljarðar í hælisleitendur þá erum við komin með töluna niður í 4 milljarða, eitthvað svoleiðis. Af þeim 4 milljörðum eru síðan mörg tilefni sem augljóslega var ekki hægt að koma í veg fyrir. Ég hef rætt hér um almannatryggingar í sambandi við það. Ég held að ef maður skoðar þetta með þessum hætti þá séu lausatökin ekki þau sem ætla má af heildarfjárhæðunum sem eru hérna undir.

Ég ætla hins vegar ekkert að fara út í mikinn ágreining við menn sem halda því fram að sum málin í þessu frumvarpi gefi ekki alveg augljóslega tilefni til fjáraukalagabeiðni. Þá er ég kannski sérstaklega að vísa til samgöngumálanna, en það er byggt á ákvörðun fyrri ríkisstjórnar að fara í frekari framkvæmdir á árinu vegna ástands sem var að skapast á vegum úti af komum ferðamanna sem voru fleiri en menn sáu fyrir og umfram spár. Síðan eru önnur tilvik hér sem tengjast ákvörðunum sem hafa verið teknar yfir árið jafnt og þétt.

Ég held að heilt yfir sé frumvarpið alls ekki dæmi um að það séu lausatök í ríkisfjármálaframkvæmdinni, en það má kannski frekar setja spurningar fram um það hvort við höfum fundið rétta taktinn (Forseti hringir.) varðandi samspil fjáraukalaga og varasjóðs.