148. löggjafarþing — 7. fundur,  21. des. 2017.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2018.

3. mál
[19:47]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að segja nokkur orð um nefndarálit meiri hlutans og nokkur mál sem að því snúa. Það er vissulega mikilvægt sem kemur fram í þessu frumvarpi og nefndarálitinu að við erum að hækka fjármagnstekjuskattinn upp í 22% en jafnhliða því er farin sú leið að hækka frítekjumark vegna fjármagnstekna lítið eitt sem gagnast fremur þeim sem eiga lægri innstæður en þeim sem hafa mestar tekjur af fjármagni. Þetta er mikilvægt.

Ég tek líka undir það sem kom fram í máli hv. þm. Óla Björns Kárasonar áðan vegna þeirrar umræðu sem menn hafa velt upp um að það eigi að fara að breyta forsendum fjármagnstekjuskatts sem einhverju nemur. Ég held að það geti verið afar flókið og erfitt að ætla að breyta því, t.d. að fara út í rauntekjuviðmið eða hvað menn myndu vilja kalla það, vegna þess að það er ekki það fyrirkomulag sem við erum með á öðrum tekjum. Ég held að það fari best á því að halda sig við að hafa prósentuna þar sem hún er, a.m.k. akkúrat í bili. Það má skoða síðar þrepaskiptingu eins og kom fram áðan eða frekari breytingar á henni til hækkunar.

Í frumvarpinu og því sem kemur fram í nefndaráliti er einnig mikilvægt að við erum að fara þá leið að hækka frítekjumark vegna atvinnutekna. Eins og komið hefur fram hjá öðrum ræðumönnum hér í kvöld og líka hjá umsagnaraðilum færi vel á því að næstu skref í breytingum á tekjumörkum elli- og örorkulífeyrisþega lægju í því að jafna að einhverju leyti þann mun sem er á milli lífeyristekna og atvinnutekna. Atvinnutekjurnar eru eðli málsins samkvæmt fyrst og fremst möguleiki þeirra sem eru við góða heilsu og á tiltölulega ungum aldri í eldri aldurshópnum og þess vegna eðlilegt að horfa til þess að hinir sem eru ekki lengur í færum til að afla sér aukatekna hafi líka möguleika á einhvers konar frítekjumarki, til að mynda í lífeyristekjum.

Meiri hluti nefndarinnar kemur aðeins inn á þetta í nefndaráliti, m.a. í því að beina því til fjármála- og efnahagsráðuneytisins að skoða með hvaða hætti verði hægt að bregðast við þessu, þá væntanlega í tengslum við fjármálaáætlun og svo væntanlega næstu fjárlög.

Það er eitt mál enn í nefndarálitinu, herra forseti, sem mig langar að útskýra betur. Það varðar 38. gr. frumvarpsins þar sem er fjallað um hækkanir á gjöldum vegna ýmissa mála hjá Útlendingastofnun. Við fyrstu sýn gat virst sem þarna væri um að ræða hækkanir töluvert umfram verðlag. Nefndin fékk minnisblað frá dómsmálaráðuneytinu og útreikninga á þessum gjöldum til staðfestingar á því að það væri rétt að þrenn þessara gjalda hækkuðu að einhverju leyti umfram verðlag en í skýringum dómsmálaráðuneytis kemur fram að breytingarnar sem á þeim verða eigi sér eðlilegar skýringar, m.a. í því að þarna er um að ræða gjöld vegna flýtimeðferðar. Sú vinnuregla hefur verið viðhöfð að meira er rukkað fyrir hana en hefðbundna meðferð.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en vil að lokum segja að það er búið að vera mjög fróðlegt að vinna að þessum bandormi á methraða á örstuttum tíma sem nýr í efnahags- og viðskiptanefnd. Ég verð eiginlega að segja að ég er þegar farinn að hlakka til vinnunnar á næsta ári sem ég vona að verði á skikkanlegri tíma og við skikkanlegri aðstæður.