148. löggjafarþing — 8. fundur,  22. des. 2017.

fjárlög 2018.

1. mál
[19:05]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf áhugavert að velta pólitíkinni og pólitískri þróun fyrir sér með hv. þingmanni. Það sem hann spyr um hér er auðvitað spurning sem maður hefur spurt sig lengi og ítrekað því það hefur verið viðvarandi umræða í þessum sal í a.m.k. áratug og líklega lengur um mikilvægi þess að breyta vinnubrögðum á Alþingi, bæta ásýnd þingsins og auka traust Alþingis, herra forseti. Mikið höfum við heyrt um það. Ég hugsa að flestir séu sammála um að við myndum auka traust Alþingis ef við næðum árangri í því sem hv. þingmaður bendir á að við birtumst ekki út á við eins og tvö lið sem eru fyrir fram búin að ákveða að vera á móti öllu sem hitt liðið hefur fram að færa.

Það er stefna okkar í Miðflokknum og ég veit að það er líka yfirlýst stefna Pírata að gera okkar til þess að breyta þessu og vera opin fyrir tillögum sama hvaðan þær koma, meta tillögurnar eingöngu á grundvelli þeirra sjálfra og rökstuðningnum sem er færður fram en ekki meta þær út frá því hver það var sem kom með tillöguna.

Ríkisstjórnin sem nú er tekin við kynnti stjórnarsáttmála undir óvenjulegu heiti, þ.e. stjórnarsáttmálinn hét ekki aðeins sáttmáli ríkisstjórnarinnar heldur sáttmáli um ríkisstjórnarsamstarf og eflingu Alþingis. En hver hefur raunin orðið? Hver var t.d. raunin þegar kom að því að skipa fólk í nefndir? Það var ekkert hlustað á athugasemdir eða beiðnir stjórnarandstöðu.

Hver er svo raunin þegar kemur að fjárlögunum eins og hv. þingmaður nefnir? Ætli það verði einhver breytingartillaga stjórnarandstöðu samþykkt hér í kvöld? Vonandi sem flestar. Ég hugsa að þær séu flestar til bóta, ekki bara þær tillögur sem við flytjum, heldur einnig tillögur frá (Forseti hringir.) þingflokki hv. þingmanns og annarra. En nú reynir á, herra forseti. Við fáum kannski svarið í kvöld. Er einhver von til þess að ríkisstjórnin muni breyta hér vinnubrögðum og hlusta á góðar tillögur sama hvaðan þær koma?